Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sem meðal annars situr í fjárlaganefnd Alþingis, er harðorður um fjármálaáætlun Bjarna Benediktssonar, og ríkisstjórnar hans.
„Í dag var lykilplagg íslenskra stjórnmála kynnt,“ skrifar Ágúst Ólafur.
„Um er að ræða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til 5 ára en finna má nokkur stórtíðindi í áætluninni. Til dæmis er ekki gert ráð fyrir neinu viðbótarfjármagni í barnabætur næstu 5 árin þrátt fyrir loforð um annað. Þá mun ríkisstjórn Vinstri grænna ekki að setja krónu til viðbótar í vaxtabætur sem þó eru í sögulegu lágmarki. Ríkisstjórnin mun meira að segja setja helmingi minni fjármuni í byggingu leiguíbúða á næstu árum en nú er.
Fjármunir til framhaldsskólanna munu standa í stað næstu fimm árin þrátt fyrir mikla þörf og enn vantar talsvert upp á að háskólarnir nái Norðurlandaviðmiðinu eins og var búið að lofa. Því bólar lítið á menntasókninni. Fjárframlög til samgöngumála munu beinlínis lækka frá 2019 til 2023 og sömu sögu má segja um fjármuni til menningar- og æskulýðsmála á næstu fimm árum. Þá sýnist mér að aukningin til aldraða og öryrkja sé fyrst og fremst vegna fjölgunar þessara hópa.
Þá er fyrirhugaðar skattabreytingar mjög áhugaverðar. Það er skemmst frá því að segja að áhrif Vinstri grænna á þær breytingar eru engin. Ríkisstjórn ætlar að lækka tekjuskatt einstaklinga um eitt prósentustig sem mun skila meiri krónum í vasann eftir því sem tekjur viðkomandi eru hærri. Þessi aðgerð ein og sér kostar ríkissjóð 14 milljarða króna en það er svipuð upphæð og ríkisstjórnin tímir að setja samanlagt í barnabætur og vaxtabætur eða það sem almenn sjúkrahúsþjónusta heilbrigðisstofnana úti á landi kostar. Þá eru hugmyndir að verja fjármagnseigendur, einn hópa, gegn áhrifum verðbólgu þegar kemur að fjármagnstekjuskattinum og lækka á sérstaklega bankaskattinn.
Auðvitað má finna ýmislegt jákvætt í áætlun af þessu tagi en það er með ólíkindum af hverju hagsmunir fjölskyldu- og millitekjufólks séu alltaf látnir mæta afgangi hjá þessari ríkisstjórn,“ en þannig endar dómur Ágústs Ólafs.