Halldór Friðrik Þorsteinsson, sem sækist eftir endurkjöri í stjórn Frjálsa lífeyrissjóðsins, skrifar langa grein í Mogga dagsins og finnur mjög að ákvörðunum sem ráðafólk sjóðsins hefur tekið. Mestu munar, að mati Halldórs Friðriks sem margra annarra, hversu sjóðurinn er í nánu sambandi við Arionbanka.
Halldór Friðrik telur upp nokkrar ástæður fyrir óánægju með starf sjóðsins. Hér er ein þeirra:
„Þriðja ástæðan fyrir lakari ávöxtun eru afleitar fjárfestingar í tveimur kísilmálmverksmiðjum, í Helguvík og Bakka árið 2014. Samtals nam tap þessara fjárfestinga um tveimur milljörðum króna og enn getur bæst í þá hít. Að mínu viti var misráðið að fara í þessar fjárfestingar og ákvörðun þar að lútandi langt umfram eðlileg áhættumörk lífeyrissjóðs. Það er mjög áhættusamt að fjárfesta í óbyggðum kísilmálmverksmiðjum sem eru í harkalegri samkeppni á heimsmarkaði. Þá virðist sjóðurinn hafa ákveðið að fara í United Silicon-verkefnið með Arion banka á grundvelli ófullnægjandi áhættugreiningar og taka verulega áhættu umfram bankann. Á meðan bankinn gat gengið að veðum tapaði sjóðurinn allri sinni fjárfestingu. Eftirlit Arion banka og sjóðsins með verkefninu var í molum um árabil.“