- Advertisement -

Ágreiningur í ríkisstjórninni varð til þess að lokað var á kjúklinga frá Úkraínu

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir Viðreisn skrifaði:

Það er nánast ár upp á dag frá því að sett voru lög um tollfrjálsan innflutning á landbúnaðarvörum frá Úkraínu. Samhugurinn á Alþingi var sterkur. Ári seinna er tónninn annar.

Tilefni laganna var beiðni Úkraínu til EFTA ríkjanna en í beiðninni kemur fram að innrás Rússa hafi leitt til þess að lokast hafi fyrir útflutning frá Úkraínu um hafnir landsins við Svartahaf. Til þess að halda efnahag landsins gangandi þrátt fyrir stríðsátök leita stjórnvöld í Úkraínu leiða til að auka útflutning yfir þau landamæri ríkisins sem liggja að ríkjum í Evrópu. Efnahagur Úkraínu er háður aðgengi að erlendum mörkuðum fyrir vörur eins og stál, vélar og almenn aðföng til landbúnaðarframleiðslu. Til þess að ýta undir viðskipti hefur Úkraína fellt niður alla tolla inn á sitt yfirráðasvæði.

Þú gætir haft áhuga á þessum

…nú hefur þessari efnahagslegu aðgerð til stuðnings Úkraínu verið hætt…

Meginmarkmið með lagasetningunni var að Ísland sýni stuðning við Úkraínu í verki og að greiða fyrir viðskiptum á þeim erfiðu tímum sem ríkið gengur í gegnum. Þegar formaður efnahags- og viðskiptanefndar flutti málið á þingi vitnaði hún til til ávarps forseta Úkraínu á Alþingi mánuði áður en hann sagði þá:

„Augljóst er að stríð Rússa gegn Úkraínu er ekki aðeins tilraun til að sölsa undir sig landið og að slökkva líf, það er árás á frelsið sjálft. Þess vegna er mikilvægt fyrir frjálsar þjóðir heims að Úkraína verði ekki skilin eftir á berangri og berjist þar ein og afskipt við Rússland. Það er mikilvægt að allar þjóðir leggi hönd á plóg. Ég er þakklátur fyrir þau skref sem þjóð ykkar hefur nú þegar stigið, sérstaklega með því að styðja viðskiptaþvinganir gegn Rússum. Ég þakka einnig fyrir margvíslegan stuðning sem þið hafið sýnt okkur og heiti á ykkur að láta ekki þar við sitja.“

Formaður nefndarinnar vísaði líka til þeirra orða Úkraínuforseta að „engu skiptir hvort um ræðir lítil ríki eða stór, þegar við berjumst fyrir frelsinu skiptir framlag allra máli.“

Forsætisráðherra hefur sagt að innfluttningur frá Úkraínu hafi aukist vegna þessarar lagasetningar, farið úr 25 milljónum kr. á árinu í 94 milljónir. Það eru engin ósköp. Andstaðan virðist hafa stafað af því að fólk keypti kjúkling frá Úkraínu. Og þrátt fyrir að hlutdeildin í markaðnum hafi verið lítil mátti það ekki gerast. Hugmyndir um að setja eitthvert þak á innflutninginn eða að bjóða einhverjar mótvægisaðgerðir náðu ekki eyrum meirihlutans heldur.

Og nú hefur þessari efnahagslegu aðgerð til stuðnings Úkraínu verið hætt, þrátt fyrir að við telja megi öruggt að fyrir honum sé meirihluti á Alþingi. Það er ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar sem skilar þessari dapurlegu niðurstöðu fyrir Alþingi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: