Afurðastöðvar rökstyðji verðhækkanir
Ég skora á verslanir til að hafna þessum hækkunum og krefjast þess að þær verði dregnar til baka.
Marinó G. Njálsson skrifaði:
Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt, að forsvarsmenn þeirra afurðastöðva, sem tilkynnt hafi verðhækkanir, leggi fram upplýsingar sem sýni hvað það er í útgjöldum stöðvanna sem hefur hækkað vegna lækkunar krónunnar. Skýringar, eins og að hráefnisverð hafi hækkað, þegar mest allt hráefni er innlent, og ýmis gjöld hafi hækkað, eru ekki trúverðugar. Hvað er það í lækkun krónunnar sem veldur slíkri mikilli hækkun framleiðslukostnaðar, að hækka þurfi verð um 3-5%? Á þessi hækkun framleiðslukostnaðar við allar afurðir eða bara sumar?
Ég viðurkenni að krónan hefur lækkað, en sú lækkun er að jafnaði um 6% á mánuði og rúmlega 9% innan ársins. Ég leyfi mér að efast um að veiking krónunnar leiði af sér 3-5% hækkun framleiðslukostnaðar og þetta sé frekar vegna mikils samdráttar í sölu vegna mikillar fækkunar ferðamanna. Menn eru því að nota tækifærið, þegar þeir fá vafasama afsökun til verðbreytinga. Ég skora á verslanir til að hafna þessum hækkunum og krefjast þess að þær verði dregnar til baka. Það verða allir að reyna eins og frekast er hægt að stinga sér í gegn um ölduna og forðast verðhækkanir.
Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós.