„Framsýn stéttarfélag fordæmir ólýðræðisleg vinnubrögð trúnaðarráðs Sjómannafélags Íslands vegna brottreksturs Heiðveigar Maríu Einarsdóttur sem boðið hefur sig fram til formanns í félaginu.
Mikilvægt er að félagsmenn Sjómannafélags Íslands bregðist við þessari forkastanlegu samþykkt trúnaðarráðs félagsins og mótmæli henni harðlega. Vinnubrögð sem þessi eru ekki boðleg og eiga ekki að líðast í lýðræðislegum stéttarfélögum.
Stéttarfélög starfa skv. lögum nr. 80/1938 og eiga að vera opin öllum þeim sem starfa á því starfssvæði sem kjarasamningar viðkomandi stéttarfélags ná yfir. Félagsaðildinni fylgja mikilvæg réttindi sem eru hluti af velferð launafólks á vinnumarkaði og hún tryggir vernd félagsmanna í samskiptum þeirra við atvinnurekendur. Stéttarfélagi er ekki undir neinum kringumstæðum heimilt að reka félagsmann úr félaginu og svipta hann þar með þessum réttindum.
Aðild að stéttarfélagi felur jafnframt í sér rétt til lýðræðislegrar þátttöku og áhrifa í félaginu með málfrelsi, tillögurétti, atkvæðisrétti og kjörgengi. Krafa um greiðslu félagsgjalda í þrjú ár til þess að öðlast kjörgengi innan félagsins felur augljóslega í sér ólögmætar hömlur á frelsi og réttindi félagsmanna og slíkt þekkist ekki innan íslenskrar verkalýðshreyfingar.
Alvarleg brot félagsmanns stéttarfélags gegn eigin félagi eins og t.d. ef hann vinnur með atvinnurekendum gegn hagsmunum þess, geta í alvarlegustu undantekningartilvikum leitt til þess að hömlur verði settar á atkvæðisrétt og kjörgengi. Skoðanaágreiningur og gagnrýni á störf félagsins eru ekki slík brot heldur skýrt merki um lýðræðislega þátttöku í starfsemi félagsins.
Framsýn stéttarfélag skorar því á forystu Sjómannafélags Íslands að virða lög og reglur sem gilda almennt um starfsemi stéttarfélaga og kjörgengi félagsmanna á vegum verkalýðshreyfingarinnar og afturkalla ákvörðun sína um brottrekstur Heiðveigar Maríu Einarsdóttur úr félaginu.“