Helga Vala skrifaði:
Það er ekki hægt að horfa fram hjá þjónkun íslenskra stjórnvalda við útgerðina í þessari umfjöllun fjölmiðla um Samherja í Namibíu. Áratugum saman höfum við reynt að fá skýrt auðlindaákvæði í stjórnarskrá lýðveldisins vegna okkar eigin auðlindar en „einhverra hluta vegna“ hefur verið þykk fyrirstaða meðal ákveðinna stjórnmálamanna gegn slíkri nauðsynlegri breytingu. Þá er heldur ekki hægt að horfa fram hjá því að á sama tíma og krónan lækkar og útgerðin hagnast verulega vegna þess sé passað upp á að útgerðin greiði nú ekki eðlilega rentu hér á landi af nýtingu af okkar auðlind. Það er ákvörðun ríkisstjórnarinnar, hvar sjávarútvegsráðherra er fyrrum stjórnarformaður Samherja og var meira að segja kallaður „okkar maður“ af Samherjum í samtali við ráðamenn Namibíu. „Við eigum hann líka“ virðist vera viðkvæðið og má með sanni álykta að svo sé. Það má ekki hreyfa við þessu kerfi sem nú hefur komið í ljós að leiðir af sér gígantíska spillingu, arðrán hjá einni fátækustu þjóð veraldar og já, glæpsamlegt athæfi.
Við þurfum að tryggja Héraðssaksóknara vinnufrið. Við þurfum að tryggja Héraðssaksóknara nægt fjármagn og mannfjölda til að rannsaka þessa glæpastarfsemi í þaula. Ég skammast mín djúpt og innilega, aftur. Aftur komumst við Íslendingar í heimsfréttirnar.