Sjálfstæðisflokki hefur tekist með mjög áberandi aðferðum að tefja samþykktar breytingar á stjórnarskránni, hvað þá að taka upp nýja stjórnarskrá. Ávallt er sagt að takst verði full samstaða til að gera breytingar á stjórnarskrá sem hefur orðið til þess að sá sem skemmst vill ganga, það er Sjálfstæðisflokkurinn, ræður förinni. Því er kyrrstaða í málinu.
Vissulega er Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins. Þrátt fyrir það ræður hann ekki öllu. Segja má að Davíð Oddsson sé einhverskonar heiðursformaður og hann ræður för víða, ekki síst varðandi stjórnarskrána og breytingar á henni. Enn og aftur slær til Bjarna og skammar hann opinberlega. Kíkjum á hluta af Reykjavíkurbréfs morgundagsins.
„Hrunstjórn þeirra Jóhönnu og Steingríms sat í tvö ár eftir að hún missti meirihluta sinn, tilgang sinn og tilverurétt. En síðan hafa þrjár stjórnir sest að kötlunum þar sem kjötið var í gamla daga. Það vakti óneitanlega athygli, svo ekki sé sagt vonbrigði, þegar í ljós kom að ríkisstjórnin sem tók við síðla árs í fyrra hafði það með í sínum næfurþunna sáttmála að áfram skyldi halda þessari skrítnu aðför að stjórnarskránni.
Það var eins og enginn hefði sagt þeim að Hörður Torfason, Þorvaldur Gylfason með hattinn*, Illugi Jökulsson og aðrir tindátar sömu gerðar væru ekki lengur með stjórnarmyndunarumboð í landinu. Þeir höfðu vissulega fengið það frá Ríkisútvarpinu forðum en nú hafa flestir áttað sig á því að það er ekki lengur gilt og var það aldrei.
Það var enginn rökstuðningur fyrir því í þessum síðasta stjórnarsáttmála hvers vegna enn skyldi ráðist á stjórnarskrána svo eini kosturinn er að líta á þetta sem kæk. Það er viðurkennt að kækjum stjórna menn vart en svo vill til að auðvelt er að ná tökum á þessum.
Hvorugur samfylkingarflokkanna situr í núverandi stjórn og þeir eru einir um að ganga fyrir þessu hatri á íslensku stjórnarskránni.
En svo vill til að ríkisstjórnin hefur einmitt dregið þessa flokka að borðinu þar sem pukrast er með árásina á stjórnarskrána og reynt er um leið að leiðrétta þau mistök sem stjórnarsinnar virðast telja að kjósendur hafi gert í síðustu kosningum gagnvart samfylkingarflokkunum. Við þetta borð er leitað leiða til þess að gera megi þeim sem er fátt um fullveldið mögulegt að komast með hraði inn í ESB ef óvænt tækifæri kæmi upp. Það er svo sem ekki líklegt í núverandi stöðu en viljinn er hinn sami og undirmálin eru hin sömu.“
Þetta má lesa sem afsvar Sjálfstæðisflokksins. Stjórnarskránni verður ekki breytt meðan flokkurinn fær að ráða för.
*Til skýringar á orðum Davíðs þegar hann skrifar Þorvaldur Gylfason með hattinn, verður að geta þess að Þorvaldur, sem er prófessor í hagfræði, hafði miklar athugasemdir um að Davíð hafi orðið Seðlabankastjóri og kallaði það dýrustu hvíldarinnlögn Íslandssögunnar.