Davíð Oddsson:
„…enda umdeilanlegt hvort að flokkurinn geti gert slíka kröfu hvort sem er.“
„Að lokum er óhjákvæmilegt að nefna eitt atriði könnunarinnar sem óneitanlega kemur á óvart. Það er útkoma Vinstri grænna, flokks forsætisráðherrans. Hann er eini stjórnarflokkurinn sem tapar þar merkjanlegu fylgi á meðan að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn halda sínu, þótt fylgi hvorugs flokks, og þá Sjálfstæðisflokks sérstaklega, sé ekkert til að hrópa húrra fyrir,“ skrifar Davíð í Reykjavíkurbréfið sitt. Hann vitnar til skoðanakönnunar sem MMR gerði fyrir Moggann.
„Vinstri grænir myndu samkvæmt niðurstöðunni tapa 4 þingsætum af 11. Yrði þetta raunveruleikinn gæti VG ekki gert kröfu til embættis forsætisráðherra, og enda umdeilanlegt hvort að flokkurinn geti gert slíka kröfu hvort sem er.
Og óneitanlega væri hæpið að VG teldi sér stætt á af innanflokksástæðum að sækjast eftir ríkisstjórnarsæti við þessar aðstæður.
Það hefur legið í lofti, sem mat sem hafið sé yfir vafa, að Katrín Jakobsdóttir njóti mikils persónulegs fylgis og það langt út fyrir flokkinn. Ýmsar mælingar hafa bent í þá átt. En yrðu úrslit kosninga eitthvað svipuð þessum í tilviki VG væri staða þess flokks gjörbreytt frá því sem áður var.
En undirstrika verður að allar þessar vangaveltur hafa enn mjög takmarkað gildi vegna aðstæðna sem áður voru raktar.“
Davíð hélt áfram: „Kjósendur voru teknir í rúminu í sinni sumarvímu. Þeir eru langfæstir komnir í pólitíska gírinn og vilja sjálfsagt fá að vera lausir við hann í nokkrar vikur enn.
Þegar næst verður kannað er ekki ósennilegt að kjósendur verði öðruvísi upplagðir þegar þeir svara sambærilegum spurningum.
Könnunin, sem birt var í gær, er eins og fyrr sagði næsta einstök.
Það verður því spennandi að fylgjast með næstu könnun. Þá mun verða runnið upp fyrir kjósendum að kjörkassinn er skammt undan og þegar krossaður seðillinn hefur runnið niður um rifu hans verður ekkert aftur tekið, jafnvel ekki næstu fjögur árin.“