„Nýjustu fréttir sem við heyrum af fangelsismálum eru að til standi að rífa turninn á Litla-Hrauni til að gera umhverfið minna þrúgandi,“ sagði Sigmundur Davíð, formaður Miðflokksins, á Alþingi.
„Afplánun á nú þrátt fyrir allt að vera fyrir fanga en ekki fangaverði. Það á ekki að vera erfiðara fyrir fangaverði að starfa í fangelsi heldur en fyrir fangana að afplána þar. Hvað sem líður turninum á Litla-Hrauni þá heyrir maður nefndar hugmyndir um manneskjulegra umhverfi og ég er mjög hlynntur kenningum um slíkt, ekki bara í fangelsum heldur líka á heilbrigðisstofnunum og sem víðast. Við verðum engu að síður, þrátt fyrir alla þessa mikilvægu umræðu um betrun, að geta greint á milli, a.m.k. að hafa hvata svo hægt sé að greina á milli þeirra sem lenda á glapstigum og langar til að komast á rétta braut og hinna sem eru bara ekki góðir gæjar og verða það aldrei, sama hversu mörg námskeið þeir sitja,“ sagði hann.
„Því miður er staðan orðin sú á Íslandi varðandi umfang skipulagðrar glæpastarfsemi, eins og m.a. kemur fram í skýrslum ríkislögreglustjóra, að þar eru menn sem virða engin þau mörk sem áður hafa gilt hér á landi. Þeir fara sínu fram og fangaverðir þurfa of oft að takast á við þessa menn án þess að hafa aðstöðu og aðbúnað til. Með öðrum orðum, herra forseti, þá þarf stefnumörkun í þessum málaflokki að líta til breytts ástands og breytts eðlis brota á Íslandi.“