- Advertisement -

Afneitunarstöðin á Dalvík

„Lofið gæzku gjafarans, grænar eru sveitir lands“.

Halldór Árni Sveinsson skrifaði:

Til skamms tíma voru reknar þrjár einangrunarstöðvar í Hrísey, nálægt landi í Eyjafirði miðjum. Þetta fyrirkomulag þótti á þeim tíma hentugt til að geyma þar í tiltekin tíma innflutta nautgripi, svín og að endingu gæludýr líka, til að tryggja að málleysingjar þessir smituðu ekki kollega sína af íslenskum stofnum. Lítið hef ég heyrt af dýrahaldi þessu undanfarin ár, og er mér nær að halda að starfsemi þessi hafi dregist mjög saman, eða hreinlega lagst af eins og svo margt sem til uppgripa telst í fámennum byggðum landsins. Veit ég þó að á fastalandinu steinsnar frá hefur bjórbruggun gengið prýðilega, og vætir kverkar landsmanna öðru hvoru.

Brothættar byggðir eru víða við sjávarsíðuna úti á landi, og telja íbúar á mörgum slíkum stöðum sig hlunnfarna vegna sviptinga með kvótann, sem safnast hefur á tiltölulega fáar hendur, og sýnist sitt hverjum um ástæður þess og fyrirheit sem gefin hafa verið á þeim tímamótum sem kvóti hefur skipt um hendur. Allt hefur þó gengið í lukkunnar standi á Akureyri og enn frekar Dalvík, enda átthagaást kvótaeigenda sérstaklega sterk í kringum þessi byggðarlög, sem sést best í því að stór hluti vinnandi fólks t.d. á Dalvík á bókstaflega allt undir gæsku þessara greifa, í beinum störfum við útgerð og fiskvinnslu, og afleiddum störfum vegna þessara umsvifa. Enda eiga sægreifarnir bert bein í hverju mannsbarni, sem líta á þá sem kónga og Guði, og mega ekki vamm sitt vita þegar talið berst að meintri sómakennd þeirra – eða öllu heldur skort á henni. Minnir helst á gamalt stef í Skólaljóðunum; „Lofið gæzku gjafarans, grænar eru sveitir lands“.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Og þorpsbúar upplifi gagnrýna fréttamennskuna og gagnalekann eins og árás á tilveru sína og afkomu.

Því er skiljanlegt að fólki sé brugðið þegar fréttir vikunnar draga fyrir sólstafi himinhvolfsins, svo mesti dýrðarljóminn hverfur eins og dögg fyrir sólu – og það á sjálfan Sólkonunginn. Og þorpsbúar upplifi gagnrýna fréttamennskuna og gagnalekann eins og árás á tilveru sína og afkomu – reyndar ákaft hvött til slíkra viðbragða frá þeim sem kastljósið beinist að, manni sem útmálar sig sem sérstakt fórnarlamb í þessu útsmogna mannorðsmorði Seljan & co.

Slík er afneitunin, þrátt fyrir skilmerkilega framsetningu gagna í Kastljósþættinum, að ekki fannst einn aðili í öllu þorpinu, sem efast eitt augnablik um ráðvendni hins algóða velgjörðarmanns. Því er ekki svo galið, að fara að huga að því, hvort ekki sé rétt að girða þorpið af og reka þar fyrstu afneitunarstöð landsins. Nú þegar stutt er í Litlu jólin í skólum landsins, gætu þorpsbúar haldið Stóru jólin með stuðningi hins miskunnsama Samverja, þar sem nóg yrði að bíta og brenna, og jólasveinarnir Kvótagámur og Mútuþegi myndi skemmta gestum og gangandi. Sveitarstjórinn stórmóðgaði sem vill meina að öll landsbyggðin og þó RÚV sérstaklega, skuldi íbúum Dalvíkur sérstaka afsökunarbeiðni, gæti flutt ávarp og boðið nýjan stöðvarstjóra Afneitunarstöðvarinnar velkominn. Helsti kandídatinn verður að teljast Gunnar Bragi Sveinsson, sem farið hefur hamförum af vandlætingu undanfarna daga. Flokksbræður hans sem leita dyrum og dyngjum að krassandi sögum úr kerfinu, hafa haft undarlega hljótt um sig og látið þetta stærsta kerfismál sögunnar afskiptalaust – sennilega vegna þess hvað það líkist neyðarlega mikið sjónhverfingum formanns þeirra í því að láta peninga hverfa í skattaskjólum.

En það eru fleiri í afneitun svo eftir er tekið. Enn einn skattakjólsprinsinn, fjármálaráðherrann, reynir að telja breskum fréttamönnum trú um að Samskipaófögnuðurinn og mútumálin sé öll litla svarta Sambó í Namibíu að kenna, Elliði Vignisson er á sömu línu og kallar gíruga ráðherra Namibíu sósíalista..sic… og Brynjar Níelsson fer öfugu megin fram úr á hverjum morgni. Ekkert nýtt þar.

Sjávarútvegsráðherrann ætlar að segja sig frá öllum samskiptum við Samherja, nema að klippa á borða hjá þeim og sjá um síma- og húsvitjanir.

Ekki sást bofs í hagsmunagæslusnepli útgerðarinnar í langan tíma, ef frá er talin ein uppskrift af spældum Hrossamakríl í Kýpversku samsoði af fagurgala og Dúbairjómaþvættingi á Smartlandi. Samtök atvinnurekenda vissu ekki hvaða pól ætti að taka í hæðina í marga daga. Vara þó við tíðtækum ályktunum og hertu eftirliti af öllu tagi. Helst ætti aldrei að rannsaka né skoða neitt hjá fyrirtækjum landsins, hvorki hugsanleg skatta- né lagabrot. Og svo bara einkavæða Fríhöfnina (sem heitir víst á fagmáli að hleypa einkaframtakinu að Fríhöfninni).

Framsókn er í af og fráneitun, því spilling þrífist ekki á Íslandi segir Sigurður Ingi, og sjávarútvegsráðherrann ætlar að segja sig frá öllum samskiptum við Samherja, nema að klippa á borða hjá þeim og sjá um síma- og húsvitjanir.

Nýráðinn afleysingaforstjórinn er í þverneitun og ætlar að reyna að drepa málinu á dreif með aðkomu norsks almannatengils og svæfingalæknis, sem á að getað bullað út í eitt. Alveg er ég steinhissa á honum að ráða ekki sænska kokkinn úr Prúðuleikurunum í djobbið, sá getur bullað tímunum saman án þess að skiljist eitt aukatekið orð.

En greinilega er varnartaktíkin sú að skammast sín ekkert, viðurkenna ekkert, látast ekki skilja neitt og afneita restinni. Og treysta svo bara á gullfiskaminnið okkar landsmanna, þetta fjari smám saman út, eða einhver annar skandall taki athyglina. Eða bara jólin?

Ekki er útlit fyrir að neitt sé að breytast…. því miður.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: