Mogginn er skrýtin skepna. Í blaðinu í dag birtist ljóst og klárt afneitun Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna á fátækt í landinu. Í þessu sama blaði kemur einnig fram, enn og aftur, að hluti þjóðarinnar situr fastur í gildru fátæktar.
„Sömuleiðis kemur fram í könnuninni að 43,3% svarenda hafi frestað eða hætt við það að fara til tannlæknis af fjárhagsástæðum á síðustu 12 mánuðum. Einnig hefur hátt hlutfall frestað læknisheimsóknum og lyfjakaupum,“ segir í frétt í blaðinu. Þar er vitnað til könnunar á afkomu fólks í Einingu-Iðju.
„Stundum vill gleymast í umræðunni hér hve jöfnuður er mikill á Íslandi og hve kjör eru almennt góð og fara hratt batnandi. Mikilvægt er, um leið og reynt er að laga það sem upp á vantar, að minnast þess hvernig staðan er og hve miklum árangri Ísland hefur náð,“ segir svo í Staksteinum. Ritstjórinn hefði betur lesið fréttirnar í blaðinu áður enn hann skrifaði þetta. Áður en hann forhertist í afneituninni. Mannvonskunni.
„Í þessu sambandi þarf einnig að huga að því að hækkunin hefur á síðustu árum verið mest á lægstu launin. Þessi þróun, samhliða lágri verðbólgu, þætti óhugsandi í öðrum löndum, en hér er stundum látið eins og þetta sé allsendis ófullnægjandi.“
Má vera að einhverjir trúi þessu í raun og veru? Þingflokksformaður Vinstri grænna, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir gerir það. Hún er, eins og Katrín flokksformaður, búin að gleyma réttlætinu sem var lofaði meðan flokksnefnan var í stjórnarandstöðu. Mogginn kallar í þingflokksformanninn til að ræða tillögur Bjarna Benediktssonar. Bjarni segist vilja lækka skatta einhvern tíma í framtíðinni.
Bjarkey man ekki eftir öryrkjum, ekki eftir þeim sem líða skort alla daga, ekki þeim fátækustu. Nei, en hún man eftir bönkunum og fyrirtækjunum,
„Við höfum fyrst og fremst talað fyrir lækkun á tryggingargjaldinu og bankaskattinum eins og til stóð alveg frá því að VG var í samstarfi við Samfylkinguna í ríkisstjórn. Annað hefur ekki verið ámálgað og við munum þurfa að taka á slíkum tillögum þegar þar að kemur,“ segir Bjarkey í Mogga dagsins.
Réttlætið er enn á biðstofunni. Og verður þar meðan VG kýs að teika Bjarna og hans flokk, hvert sem ferðinni er heitið.