Ólafur Ísleifsson mælti fyrir frumvarpi sínu, um afnám verðtryggingar, á Alþingi í dag. Það voru einungis samflokksmenn hans í Miðflokki sem tóku til máls um málið. Helgi Hrafn Gunnarsson kom reyndar með andsvar.
Frumvarpið hljóðar svona: „Heimild til verðtryggingar láns með veði í íbúðarhúsnæði er bundin því skilyrði að við útreikning verðbóta séu felld brott áhrif breytinga á óbeinum sköttum og húsnæðisliðar vísitölu neysluverðs og að ákvæðisvextir nemi eigi hærri hlutfallstölu en 2% á ári. Hagstofa Íslands skal gefa út mánaðarlega vísitölu þar sem óbeinir skattar og húsnæðisliður hafa verið felldir brott. Heimilt er að verðtryggt jafngreiðslulán með veði í íbúðarhúsnæði hafi allt að 25 ára lánstíma.“
Í niðurlagi greinargerðarinnar segir:
„Nú eru liðin nær 40 ár frá því að verðtrygging varð almenn í lánaviðskiptum einstaklinga hér á landi. Hún kom til þegar glíman við verðbólguna var sem hörðust og þegar landslag peninga- og lánamála var með allt öðrum hætti en síðar varð. Skipulegur markaður fyrir skuldabréf hafði vart slitið barnsskónum, hlutabréfamarkaður heyrði framtíðinni til, fjármálaviðskipti við útlönd voru takmörkuð og viðskipti milli landa með verðbréf óþekkt. Fjármálastofnanir af því tagi sem nú þekkjast sem bjóða fjölbreytta þjónustu við ávöxtun fjár og miðlun voru ekki komnar til sögunnar. Þrautaráð við þessar aðstæður þar sem ekki voru forsendur á mörkuðum eða fjármálastofnunum fyrir beitingu hefðbundinna peningalegra aðgerða gegn verðbólgu var að binda hagstærðir við vísitölur. Má telja að slík aðferð feli frekast í sér verkfræðilega nálgun af vélrænu tagi. En þá er á það að líta að efnahagslífið er síkvikt og breytilegt og er gætt lífrænni eiginleikum en trissur og tannhjól verkfræðinga þar sem allt er í föstum skorðum. Þegar allt aðrar forsendur hafa skapast um beitingu peningalegra aðgerða til að takast á við viðfangsefni eins og verðbólgu og önnur slík hlýtur neyðarúrræði á borð við verðtryggingu sem hvergi hefur þrifist í okkar heimshluta að víkja.“