Það er freistandi fyrir Boris að boða sem allra fyrst til kosninga.
Gunnar Smári skrifar:
Verkamannaflokkur Jeremy Corbyn mælist sá fjórði í röðinni í nýrri könnun YouGov fyrir The Times og hefur aldrei mælst með minna fylgi eða með þrjá ara stjórnmálaflokka yfir sér. Leiðtogakjör Íhaldsflokksins lyftir fylgi flokksins upp og mælist nú flokkurinn aftur stærstur stjórnmálaflokkanna eins og raunin hefur verið nánast óslitið frá Hruni. Næst stærsti flokkur Bretlands er Brexit-flokkur Nigel Farage og sá þriðji stærsti Frjálslyndir demókratar.
Niðurstöður könnunarinnar eru annars þessar (breyting frá síðustu kosningum innan sviga):
- Íhaldsflokkurinn: 24% (-19 prósentustig)
- Brexit-flokkurinn: 23% (+23 prósentustig)
- Frjálslyndir demókratar: 20% (+13 prósentustig)
- Verkamannaflokkurinn: 18% (-20 prósentustig)
- Græningjar: 9% (+7 prósentustig)
- Skoski þjóðarflokkurinn: 4% (+1 prósentustig)
Líkurnar á að boðað verði fljótt til kosninga þegar og ef Boris Johnson vinnur leiðtogakjör Íhaldsflokksins hafa aukist. Hann er talinn sá forystumanna Íhaldsins sem gæti unnið Nigel Farage í kosningabaráttu, í raun notað sambærilegar aðferðir, orðræðu og áherslur. Ef Íhaldsflokkurinn telur sig geta varið Brexit-flokknum til hægri er staðan sú að kosningar gætu molað niður Verkamannaflokkinn, höfuðandstæðing Íhaldsflokksins síðustu hundrað árin. Það er freistandi fyrir Boris að boða sem allra fyrst til kosninga, áður en hann þarf að heyja baráttu fyrir sinni útgáfu af Brexit innan þings, þar sem Theresu May tókst ekki að búa til meirihluta um neina sérstaka leið í Brexit.
Verkamannaflokkurinn er nú í ævintýralega vondri stöðu, verandi í stjórnarandstöðu gegn óvinsælli og verklítilli stjórn Íhaldsins. Miðað við þá stöðu, sem þessi og aðrar kannanir draga upp þessa dagana, þyrfti Verkamannaflokkurinn samkvæmt hefðbundinni kosninga-herfræði að mynda nýja stefnu í Brexit, til að sækja fylgi til fylgjenda Evrópusambandsins á meðan Íhaldið og Brexit-flokkurinn berjast um fylgi andstæðinga þess. Hingað til hefur Corbyn lagt áherslu á að stefna flokksins sé svo rúm að fylgjendur og andstæðingar Evrópusambandsins hafi þar pláss, en vandinn er að hvorugum hópnum hefur fundist stefnan nógu skýr eða líkleg til að leiða til nokkurrar niðurstöðu. Og því sem lengra líður og því neðar sem flokkurinn fer verður ólíklegra að Jeremy Corbyn nái að stjórna móta stefnu sem sameinar fjöldann innan flokksins. Þótt enginn áskorandi sé í sjónmáli sem geti unnið Corbyn í leiðtogakjöri veikist hann sem leiðtogi og á æ erfiðara með að leiða baráttu flokksins.
Staða Jeremy Corbyn sést á því að þegar Theresa May hafði gefist upp og sagt af sér sögðust 20% kjósenda vera sátt við hennar störf (hinum ósáttu hafði fækkað úr 70% niður í 56%, enda hafði hún stimplað sig út) en á sama tíma sögðust aðeins 18% vera sátt við störf Corbyn. Þrátt fyrir allar þær hörmungar sem Theresa May hefur gengið í gegnum varðandi Brexit hefur málið haft verri áhrif á Jeremy Corbyn.
Ef við berum Corbyn saman við hinn umdeilda Nigel Farage þá styðja 18% Corbyn en 63% eru á móti honum, hann er með mínus 45% nettó. 35% styðja hins vegar Farage en 39% eru andsnúin honum, hann er með mínus 4% nettó. Samskonar könnun á stuðningi við Boris Johnson, annan umdeildan mann, sýnir 31% stuðning og 47% andstöðu eða mínus 16% nettó. Vince Cable, leiðtogi Frjálslynda demókrata, mælist með 24% stuðning en 31 andstöðu eða mínus upp á 7%. Þessi samanburður sýnir Jeremy Corbyn með minnstan stuðning en langmesta andstöðu; ekki gott veganesti fyrir kosningar sem mögulega verða í haust.
Eftir síðustu kosningar kom í ljós í könnunum að stuðningur við stefnu Verkamannaflokksins, sem þá var róttækari en hún hafði verið áratugum saman, var mikill og í raun mun meiri en stuðningur við flokkinn. Staðan á flokknum eftir Brexit virðist hins vegar vera þannig í dag að ólíklegt er að honum takist að láta kosningar snúast um þessi mál; að komandi kosningar muni ekki færa róttækari vinstristefnu það fylgi sem hún þó nýtur innan samfélagsins. Það er harmleikurinn við Verkamannaflokkinn og Brexit.