„Þetta er fráleitt – algjörlega fráleitt – að fyrrverandi formaður ASÍ skuli stíga fram til þess að setja ofan í við forystu verkalýðsforystunnar fyrir „orðræðuna“. Að hann skuli veitast að sínu eigin fólki (eða hvað á maður að segja – hann greinilega lítur þó ekki á þau sem !sitt fólk“). Nú sést svart á hvítu í hvaða bandalagi þessi maður var meðan hann fór fyrir Alþýðusambandinu,“ skrifar Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir um óvænta innkomu Gylfa Arnbjörnssonar vegna stöðu Samtaka atvinnulífsins varðandi lífskjarasamninginn.
„Hann horfir augljóslega framhjá því hvernig atvinnurekendur hafa valið orð sín gagnvart verkalýðsforystunni að undanförnu, sérstaklega gagnvart ASÍ og Eflingu (hvar tvær konur eru forystumenn). Orðræða atvinnuforkólfanna er svo hrokafull og niðrandi að það er leitun að slíku tali í sögubókum, nema e.t.v. frá fyrstu umbrotadögum verkalýðshreyfingar á Íslandi, áður en vinnuréttur komst á í landinu. En hver ætlar að hafa orð á því? Varla Gylfi Arnbjörnsson. Sorglegt – eiginlega bara afhjúpandi niðurlæging fyrir fyrrverandi formann ASÍ að stíga fram með þessum hætti. Hér heggur sá er hlífa skyldi,“ skrifar Ólína.