Gunnar Smári skrifar:
Borgarfulltrúi Samfylkingarinnar hélt því fram að Reykjavíkurborg gæti ekki lagt af láglaunastefnu sína; borgin væri með útsvar og fasteignagjöld í botni. Og er það þá svo að þótt við Reykvíkingar borgi hæsta útsvar og hæstu önnur gjöld að þá séum við dæmd til að borga fólkinu sem passar börnin okkar svo lág laun að þau duga ekki fyrir framfærslu?
Nei, svo er ekki. Árið 2018 var Reykjavíkurborg og fyrirtæki hennar rekin með 7,7 milljarða kr. afgangi. Borgin tekur því til sín um 61 þús. kr. af hverjum íbúa umfram þá þjónustu sem hún veitir. Á þeim nýfrjálshyggjutímum sem við lifum er þetta kynnt sem snilldarlegur rekstur af stjórnmálafólkinu. Auðvitað er ekki svo. Það er ekkert snjallt við að rukka fólk um félagsgjöld að góðri borg en nýta þau síðan ekki, heldur ræna hin fátækustu möguleikanum á að eiga fyrir mat út mánuðinn.
Láglaunafólkið í borginni á um 1/4 af þessum afgangi, það eru launin sem þau eiga skilið en borgin neitar að láta af hendi.