„Umræðan um orkumál, og þá sér í lagi orkuskort, verður háværari dag frá degi. Nú fer hver að verða síðastur að snúast á sveif með virkjunarsinnum — eða hvað? Það er blásið upp að hér á landi ríki orkuskortur og engu líkara ef ekkert verður að gert á komandi misserum munum við sitja eftir með gaslukt í moldarkofa. Þessi áfergja í meiri orku er mér ekki að skapi. Í mínum huga er forgangsröðun orku og bætt nýting hennar mikilvægustu hlekkirnir í þróun orkumála á komandi misserum,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir Vinstri grænum.
„Í nýlegri skýrslu dönsku ráðgjafastofunnar Implement, sem unnin var fyrir Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og Orkustofnun, kemur fram að hér á landi séu rík tækifæri til bættrar orkunýtingar. Um er að ræða 1.500 GWst á ári, eða um 8% af núverandi raforkunotkun þjóðarinnar. Af þeim er hægt að spara næstum fjórðung með núverandi tækni og án óheyrilegs kostnaðar. Það þykja mér tíðindi og sannarlega til mikils að vinna.
Í þessu samhengi er líka rétt að minnast á mikilvægi orkuafhendingar til heimila og smærri fyrirtækja. Heimilin nota aðeins lítinn hluta af þeirri orku sem framleidd er í dag eða um 5% á meðan stóriðjan notar ríflega 85%. Sú orka sem við framleiðum hér á landi er því mestmegnis notuð til þess eins að bræða ál. Það er mín skoðun að rétt sé að löggjafinn bregðist við því og nauðsynlegt er að tryggja raforku til heimila og smærri fyrirtækja sem ekki hefur verið kveðið á um frá því í lögunum 2003,“ sagði Bjarkey Olsen.
„Eftir því sem fjölgar í hópi þeirra sem taka óspart upp orðræðu virkjunarsinna um aukna orkuöflun sem burðarstykki hagvaxtar komandi ára, finn ég mig knúna til að minna á mikilvægi þess að það verður endalaus eftirspurn eftir grænni orku og liggur í augum uppi að ekki er hægt að verða við öllum þeim beiðnum með tilheyrandi raski á náttúrunni. Baráttan gegn loftslagsvánni snýst um fleira en orkuöflun. Hún snýst líka um breytta forgangsröðun, að verja líffræðilega fjölbreytni og standa vörð um náttúruvernd og viðkvæm svæði. Við flóknum spurningum eru nefnilega flókin svör en ekki einföld.“