Af siðferði og siðgæði þingmanna
„Siðferði og siðgæði þingmanna eru ofarlega á baugi. Alþingi, sem ætti að vera stolt frjálsrar þjóðar, nýtur bara trausts eins af hverjum sex landsmanna samkvæmt skoðanakönnunum. Aftur og aftur koma upp mál þar sem þingmenn ganga fram af almenningi, stundum með framgöngu sinni innan þingsala, stundum annars staðar. Vissulega geta menn verið siðlausir, en innan ramma laganna.“
Þetta er sýnishorn úr grein sem Benedikt Jóhannesson skrifar og birt er í Mogganum í dag.
„Sumir stjórnmálamenn og atvinnurekendur tala um að engin mynt henti Íslendingum betur en krónan, sem auðvitað er sjónarmið,“ skrifar hann og skýtur svo á mann og annan: „En þegar þeir sjálfir sjá aftur á móti ekkert að því að eiga fúlgur fjár á erlendum reikningum verður hljómurinn holur. Með sama hætti skýtur það skökku við ef þjónar almennings geyma fjármuni í skattaskjólum.“
Næst stingur hann miður fæti meðal þingmanna Miðflokksins:
„Þegar hópur þingmanna kom saman á bar og lét dæluna ganga um samþingmenn sína og fleiri var ekkert ólöglegt á seyði, en samt brá flestum. Margir spurðu sig hvort þetta væru þingmennirnir sem þjóðin ætti skilið. Virðingin fyrir Alþingi hrapaði, þrátt fyrir að þarna sætu aðeins sex þingmenn að sumbli og háværu og klúru spjalli.“
Niðurstaða Benedikts er klár:
„Þeir sem finnst ekki í lagi að almenningur nýti sér skattaskjól eiga ekki að fela sína peninga. Þeir sem telja óviðeigandi að þingmenn klæmist slompaðir á almannafæri eiga að fara varlega með áfengi. Eða tala minna.“