Davíð hefur aldrei dregið dul á hvaða hug hann ber til Sólveigar Önnu og þá um leið til Eflingar. Óþolið á sér eflaust rætur í því að nú hefur enginn maður og ekkert fyrirbæri þetta stóra og öfluga félag í vasanum. Efling er svo sannarlega risin upp. Mörgum mislíkar staða Eflingar í dag. Leiðari Moggans er um Eflingu og einkum Sólveigu Önnu. Hér á eftir fara lokakaflar leiðarans:
„Talsmáti formanns Eflingar úr forneskju sovéttímans og stéttabaráttu eftir kennisetningum Karls Marx sker sig mjög frá flestum ef ekki öllum sem starfa í verkalýðshreyfingunni. Það er helst innan Sósíalistaflokksins sem finna má slíkt tal og verður það ekki viðkunnanlegra af þeim sökum. Augljóst er að ætlun formanns Eflingar er að beita félaginu enn frekar í þeim tilgangi að vinna að breyttu þjóðfélagsskipulagi, sem sagt að þjóðfélagsskipulagi sósíalismans. Og til að þetta megi verða á Efling ekki að snúast um bætt kjör félagsmanna, enda sýndi það sig í nýafstaðinni kjarabaráttu að sá var ekki tilgangurinn. Efling á aðeins að vera tæki í höndum formannsins til að ná öðrum markmiðum.“
Vont er að átta sig hvort ritstjórinn skrifi þetta út frá eigin hugsunum eða til að ganga í augun á einhvejrum. Þetta er svo mikið lifandis bull. Leiðarinn endar svona:
„Þessi misnotkun á verkalýðsfélaginu er alvarlegt mál. Verkalýðsfélög hafa ákveðinn tilgang og njóta ákveðinna réttinda af þeim sökum, til að mynda að geta boðað til verkfalla. Séu verkföllin ekki boðuð í þeim tilgangi að bæta kjör félagsmanna heldur eingöngu til að bylta þjóðfélagsskipulaginu, þá er það slík misnotkun að hvorki stjórnvöld né almenningur geta látið sér það í léttu rúmi liggja.“
Um að hvað er verið að biðja. Er verið að óska eftir að ríkisstjórnin taki Eflingu yfir? Hvert er þessi þjóðfélagsmynd sótt? Í hvaða kolli kveiknaði hún?
Sá sem hugsar svona er ekki alveg með þetta á hreinu. Hefur samt verið forsætisráðherra lengur en aðrir.