„Og þegar þingmenn og ráðherrar tala snúðugt á móti um að þá sé bara lausnin að eignast ríkisflugfélag, eins og það væri það versta sem myndi gerast, þá spyr ég á móti, er það ekki bara í lagi? Er það ekki einmitt nauðsynlegt að íslenska ríkið eignist vænan hlut í flugfélagi? Líkt og finnska ríkið á 55,8% hlut í Finnair sem er eitt verðmætasta flugfélag í Evrópu eða flugfélag Nýja Sjálands hvers 52% hlutur er í eigu nýsjálenska ríkisins, eða tímabundinn hlutur franskra, hollenskra og þýskra stjórnvalda í þarlendum flugfélögum?“
Þetta er hluti af fínni grein sem Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, skrifar í Kjarnann.
„Jafnvel tímabundinn hlutur íslenska ríkisins í flugfélagi sem glímir við gríðarlega erfiðar aðstæður, sem íslenska ríkið gæti svo selt þegar fyrirtækið rís vonandi aftur á fætur er bara alls ekki slæm hugmynd. Þvert á móti. Hvað þá fyrir ríki sem er á eyju í Atlantshafi sem reiðir sig gríðarlega mikið á flugsamgöngur í samskiptum okkar við umheiminn,“ segir Rósa Björk.
„Og einmitt í ljósi þess hversu þjóðhagslega mikilvægt flugfélagið er vegna landfræðilegrar legu Íslands, er sú pólitíska hræðsla um að ríkið eigi hlut í þjóðhagslega mikilvægu fyrirtæki gagnrýnisverð að mínu mati.“
Í greininni fjallar Rósa Björk um óvissþættina:
„Það þarf líka að vanda vel til verka í meðferð málsins á Alþingi, því það eru óvissuþættir sem þingið þarf að fjalla faglega um og fá svör við eins og:
- Hver sé gengisáhætta ríkisábyrgðarinnar þegar upphæðin sem þingið á að ábyrgjast er í erlendri mynt en ekki íslenskum krónum. Ætlar íslenska ríkið að sitja uppi með áhættuna af sveiflum krónunnar á þeim tíma sem ábyrgðin stendur eða ætlar það að festa ábyrgð sína í ákveðinni tölu í íslenskum krónum?
- Af hverju ríkisábyrgð sé á lánalínu fyrir alla samstæðu Icelandair Group hf. en ekki bara til flugfélagsins? Það þarf að skýra hvernig það samræmist eðlilegum samkeppnissjónarmiðum gagnvart öðrum hótelkeðjum eða ferðaskrifstofum.
- Í þriðja lagi eru það tryggingarnar fyrir endurheimtingu á ríkisábyrgðinni, sem eru veðin í vörumerkjum félagsins og dótturfélagsins, vefslóð þessara félaga og lendingarheimildir á tvö áfangastaði. Hvort þetta sé að verðmæti 15 milljarða leikur mikill efi á, og bendir til að mynda Ríkisendurskoðun í umsögn sinni um málið á þetta vafaatriði.
- Í fjórða lagi þarf að vera ljóst – eins og hægt er – hvað gerist ef hlutafjárútboðið í september heppnast ekki. Hvað ef bara hluti af takmarkinu.“