Af hverju Katrín Jakobsdóttir?
Tveimur milljörðum minna í fjármangstekjuskatt, segir þingmaðurinn. Það er vegna breytinga á skattstofninum, segir forsætisráðherra.
„Af hverju leggur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur frekar fram fjárlagafrumvarp sem gerir ráð fyrir 2 milljörðum kr. minna í fjármagnstekjuskatt en áætlunin gerði ráð fyrir? Af hverju er það forgangsmál ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur að lækka bankaskattinn um 7 milljarða kr. og lækka veiðigjöldin um 3 milljarða á milli ára? Á sama tíma eru það hins vegar stórkarlalegar yfirlýsingar að vilja lækka skattbyrði á fátækt fólk. Það er víst dauðasyndin að mati ríkisstjórnarinnar.“
Þannig spurði Ágúst Ólafur Ágústsson Katrínu Jakobsdóttur síðast þegar fundað var á Alþingi. Þingið kemur að nýju saman í dag.
„Við samþykktum að hækka hann um 2 prósentustig, 10% hækkun á fjármagnstekjuskatti, um síðustu jól. Það að innkoma af fjármagnstekjuskatti lækki — og þetta veit hv. þingmaður ósköp vel þótt hann láti eins og hann viti það ekki í pontu — er vegna breytinga á skattstofninum,“ svaraði Katrín.
Ágúst Ólafur fékk tækifæri til að spyrja á ný: „…vil ég beina til ráðherra fyrirspurn varðandi fyrirséð og raunar hafið fall krónunnar sem mun éta allar hugsanlegar kjarabætur almennings. Gengisfellingar gerast alltaf á kostnað almennings. Með gengisfellingu rýrna peningar fólksins í virði og færast í raun til stórútgerðar og erlendra ferðamanna. 10% gengisfelling þýðir nefnilega 4–5% verðbólga. Það kallar á hærri vexti. Þetta eru engin geimvísindi, herra forseti.“
Katrín brást við: „Við ræddum þær aðrar leiðir sem eru lagðar til í skýrslu nefndar um endurskoðun peningastefnu, m.a. hvernig eigi að beita þeim fjárstreymistekjum sem við höfum sett í lög á undanförnum árum, hvernig eigi að beita gjaldeyrisinngripum Seðlabankans með það að markmiði að hafa stöðugri gjaldmiðil. Því miður lúta allir gjaldmiðlar fyrst og fremst hagstjórninni og þar þurfa tækin að vera til staðar, en því miður eru engar töfralausnir til í gjaldmiðlamálum á Íslandi.“