Stjórnmál

„Af hverju gerist ekkert á þinginu?“

By Miðjan

March 09, 2022

„Að auki er eftirlit þingsins í algeru lágmarki í boði meirihlutans.“

„Af hverju gerist ekkert á þinginu? Af hverju sofna alltaf endalaust mörg mál í nefnd eða eru lögð fram aftur og aftur og af hverju klárum við ekkert nema kannski endalausar EES-innleiðingar sem ég held að sé aðallega það sem gerist hérna? Ég sé nokkrar ástæður fyrir því. Til dæmis er þingflokkum í minnihluta einfaldlega skammtaður fjöldi þingmála í lok hvers þings eða þinghlés: Þið fáið eitt eða tvö mál í atkvæðagreiðslu ef þið eruð góð og hleypið fjárlögunum í gegn. Þið fáið líka eitt eða tvö önnur mál, en það verður að vera jafnt vegna þess að það er baunatalning í gangi,“ sagði Björn Leví á Alþingi í gær.

„Að auki eru síðan öll þingmál ríkisstjórnarinnar alltaf minnsti samnefnarinn. Það er bara það sem allir ríkisstjórnarflokkarnir ná að samþykkja sín á milli en ekkert umfram það, óháð því hvort meiri hluti væri fyrir því í þinginu eða ekki. Það er nefnilega mikilvægt að átta sig á því að það gæti verið meiri hluti í þinginu fyrir máli sem kemst ekki í gegnum ríkisstjórnina. Það hefur gerst. Það komu meira að segja tvö þannig mál á síðasta þingi, um þungunarrof og rafrettur. Þau voru samþykkt óháð aðild fólks að þingflokkum. Það væri hægt að gera svoleiðis oftar. Það væri til eftirbreytni,“ sagði Björn Leví og endaði ræðuna svona:

„Að auki er eftirlit þingsins í algeru lágmarki í boði meirihlutans. Við náum ekki að skoða þau mál sem hafa verið samþykkt upp á það hvort þau hafa kostað eins mikið eða lítið og sagt var að þau ættu að gera, hvort vel hafi tekist til eða ekki. Afleiðingin af þessu öllu er sú að það gerist í raun ekki neitt. Þátt fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið lengi við stjórn, ég veit ekki hve mörg ár, er bús í búðir enn fjarlægur draumur einhverra sem hafa kannski áhuga á því. Ég held meira að segja að meiri hluti væri fyrir því máli á þingi ef það kæmi til atkvæðagreiðslu. En nei, þannig virkar þingið ekki. Það er ákvörðun meirihluta þingsins að starfa svona. Það er hægt að gera hlutina öðruvísi.“