- Advertisement -

Af hverju á ég að taka því þegjandi og hljóðalaust að vera rægð og svívirt?

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifaði:

„Ritstjóri Morgunblaðsins hefur til að mynda ítrekað borið á mig sakir; ég er samkvæmt honum þjófur og nokkurskonar hryðjuverkakona, eitt af því versta sem fyrir íslenska þjóð hefur komið.“

Ég veit að þetta er tímasóun og hefur ekkert að segja, og mun á einhvern perverse hátt virka sem sönnun á því hvað ég er mikil tæfa fyrir þá menn sem ákveðið hafa að það sé hinn augljósi sannleikur um eðli mitt. En ég læt samt vaða:

Einar Kárason rithöfundur segir mig tilheyra hópi fólks sem svari „öllum öðrum með stóryrðum og persónuárásum, en rökum og staðreyndum“. Ég er dálítið búin að hugsa um þetta í dag. Ég er enn í sumarfríi og má því ef ég vil eyða tíma mínum í gagnslausar hugsanir um meinlokur manna útí bæ. Ég er búin að velta því fyrir mér hvaða persónuárásir ég hafi gerst sek um á ríflega þriggja ára ferli mínum sem formaður Eflingar. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að Einar Kárason hljóti að vera að tala um þau skipti sem ég hef stungið niður penna eftir að um mig og/eða baráttu félagsfólks Eflingar hafa birst skrif og eða/ „fréttir“ á blaðsíðum dagblaða, bloggsíðu fyrrum dómsmálaráðherra og víðar.

Og það hefur gerst þó nokkuð oft frá því veturinn 2018. Ritstjóri Morgunblaðsins hefur til að mynda ítrekað borið á mig sakir; ég er samkvæmt honum þjófur og nokkurskonar hryðjuverkakona, eitt af því versta sem fyrir íslenska þjóð hefur komið. Fyrrum dómsmálaráðherra hefur líka nokkrum sinnum birt pistla um mig þar hann segir að ég sé „gerð út“ af karlmönnum. Og auðvitað líka þjófur og blóðþyrst ill-kvendi. Vangaveltur hafa verið uppi um geðheilsu mína og þekktur lögfræðingur hefur komið sérstaklega á Facebook til mín til að spyrja hvernig sé að vera svona „vanstillt“. Ég hef í leiðara Fréttablaðsins verið ásökuð um að nota börn til að fá útrás fyrir illgirni mína. Og ég hef verið ásökuð af fínum mönnum djúpt innan úr hreyfingu vinnandi fólks um að taka börn sem gísla. Ég hef verið kölluð „þessi kerling þarna, kommúnistinn“. Ég hef verið kölluð „skaðvaldur“. Og vitiði hvað; ég hef verið kölluð svo mikið og margt á síðustu nokkrum árum að ég ætla ekki að þreyta ykkur sem þetta lesið með því að telja meira upp.

Þú gætir haft áhuga á þessum
En hversvegna upplifir Einar Kárason átök mín við þau sem hafa notað völdin sín til að grafa undan trúverðugleika mínum og baráttu láglaunafólks fyrir efnahagslegu réttlæti sem „persónuárásir“?

En hvað er það sem ég hef gert af mér til að mega njóta þess aftur og aftur að opna blöð og internet og lesa um það hverskonar snarklikkuð meri ég sé: Jú, ég var kjörin formaður Eflingar, fyrst kvenna, á róttæku, stéttabaráttu „platformi“ og ég hef reynt að gera það sem ég var kjörin til að gera; að berjast fyrir hagsmunum verka og láglaunafólks. Það er glæpurinn og fyrir hann hafa verið gerðar margar tilraunir til að refsa.

En hversvegna upplifir Einar Kárason átök mín við þau sem hafa notað völdin sín til að grafa undan trúverðugleika mínum og baráttu láglaunafólks fyrir efnahagslegu réttlæti sem „persónuárásir“? Hversvegna þykir honum ekki fullkomlega eðlilegt að kona svari fyrir sig þegar á hana eru bornar sakir, hún sögð vera strengjabrúða, geðveik og svo illa innrætt að hika ekki við að framkvæma gíslatökur á börnum? Hversvegna er ég bara óttalegt „bitch“, hversvegna fæ ég ekki að njóta geislanna frá sigur-sól kvennabaráttunnar; hvar eru lýsingarnar sem þær konur sem gera eitthvað stjóra-legt fyrstar kvenna fá að heyra um sig í samtíma okkar; flott, dugleg, sterk og svo framvegis og svo framvegis? Af hverju á ég að taka því þegjandi og hljóðalaust að vera rægð og svívirt? Er það vegna þess að ég er ekkert nema umönnunar-kelling með grunnskólapróf? Er það vegna þess að ég er og hef ávallt verið sósíalisti? Hversvegna eru það „persónuárásir“ af minni hálfu þegar ég sýni að sjálfsvirðing mín er nægileg til að ég finni hjá mér löngun til að svara fyrir mig? Af hverju á ég (ein kvenna í „stjórnunarstöðu“?) að vera svo aum og lítils virði að ég taki við hvaða skít sem mönnum dettur í hug að kasta í mig?

Og já, ég trúi á rétt minn til að svara fyrir mig þegar að mér eða félögum mínum er ráðist.

Varðandi það að ég notist ekki við rök og staðreyndir: Það er einfaldlega eins ósatt og hægt er að hugsa sér. Frá því að ég tók við sem formaður Eflingar hef ég undirbyggt allan minn málflutning með rökum og staðreyndum. Ég hef aldrei haldið neinu fram um hagi félagsfólks Eflingar sem er ósatt. Ég hef þvert á móti vandað mig í því að ganga ávallt úr skugga um að innistæða sé fyrir því sem ég segi. Og hvað hef ég verið að segja: Jú, ég hef lýst þeim efnahagslega RAUNVERULEIKA sem verka og láglaunafólki er boðið upp á í samfélagi okkar. Ég hef sagt frá aðstæðum kvenna í umönnunarstörfum og þeim svívirðilegu launum sem þeim eru greidd fyrir sitt algjörlega ómissandi vinnuafl. Ég hef reynt að varpa ljósi á þær oft á tíðum óboðlegu aðstæður sem aðfluttu verkafólki er boðið uppá. Ég hef reynt að varpa ljósi á kjör og aðbúnað farandverkafólks. Og svo mætti áfram telja. Og í hvert einasta skipti er ég hef tjáð mig um þessi mál hef ég stuðst við gögn frá Eflingu, frá ASÍ, skýrslur fræðafólks, og svo auðvitað við frásagnir þess mikla fjölda sem ég hitt og talað við, félagsfólks Eflingar sem hefur deilt með mér sögum sínum og upplifunum.

Já, ég er baráttufús. Já, ég trúi af öllu hjarta á róttæka og herskáa baráttu verka og láglaunafólks fyrir réttlæti og jöfnuði. Og já, ég trúi á rétt minn til að svara fyrir mig þegar að mér eða félögum mínum er ráðist. Ég trúi því meira að segja að sá réttur sé einn sá mikilvægasti sem við eigum; ekkert skil ég jafn illa og hugmyndina um að bjóða hinn vangann. Nema kannski trú fólks á réttinn til að arðræna annað fólk. Ekkert af þessu eru til marks um að ég sé gallað kven-eintak.

Með því að halda því fram að ég sé óheiðarleg og vanstillt hefur Einar Kárason gerst sekur um það sem hann ásakar mig um að stunda; órökstudda persónuárás. En svona er þetta og hefur verið; það er hópur manna í þessari borg sem er svo uppsigað við mig að þeir bókstaflega heyra ekkert sem ég segi, sjá bara vonda komma-grýlu sem hlýtur eðli málsins samkvæmt að bulla og ljúga öllu sem hún segir.

En það segir auðvitað miklu meira um þá en mig.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: