- Advertisement -

Af brjálseminni í fjármálaráðuneytinu

Guð minn góður, hvað er hægt að ganga langt í veruleikafirringunni?

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Umönnunarkerfin okkar hafa lengi verið skelfilega vanfjármögnuð. Fyrir okkur láglauna-kvenvinnuaflið, sem þekkjum þessi kerfi mikið og innilega er þessi staðreynd jafn augljós og sú að Ísland er eyja í Atlantshafi. Ekki aðeins hefur laununum okkar verið haldið niður af mikilli grimmd heldur hefur álag síaukist. Mannekla hefur ríkt, vegna launastefnunnar (sem endurspeglar kvenfyrirlitninguna sem grasserar enn í viðhorfum þeirra sem stýra þróun samfélagsins, þrátt fyrir fögur og fjálgleg orð á tyllidögum) en ekki síður vegna manneklunnar og álagsins sem fylgir því að að þurfa endalaust að vinna líkamlega og andlega erfið störf á miklum hraða. Ég tek dæmi: Það er komið að því að skipta á öllum börnunum á yngstu deildinni. Það vantar starfsfólk. Segir þú við litlu börnin: „Krakkar mínir, nú get ég ekki meira, þið sem eruð með gamla bleyju verið bara að vera með hana áfram.“ Nei, það gerir þú ekki, þú heldur bara áfram þangað til öll eru komin með hreina bleyju. Þú sinnir litlu börnunum á eigin kostnað ef svo má að orði komast, líkamlega og andlega, og fjárhagslega af því að engum hefur nokkru sinni dottið til hugar að borga konu meiri pening af því hún er svo dugleg að skipta á bleyjum.

Veikindi, andleg og líkamleg, hafa aukist.

Ég tek annað dæmi: Þú vinnur á hjúkrunarheimili. Það vantar starfsfólk. Segir þú við gamla manninn sem vill eiga við þig orð og biðja þig um liðsinni: „Hættu að trufla mig, ég hef ekki tíma til neins nema að gefa þér lyfin“. Nei, þú talar við hann og aðstoðar. Á „eigin kostnað“ af því að þú getur ekki sagt næsta manni að þú getir ekki talað við hann. Og ekki næsta þar á eftir heldur. En verkefnunum sem þú þarf að leysa fækkar ekki. Verkefnunum sem eru fólgin í því að annast annað lifandi fólk. Þú bara hleypur hraðar á milli herbergja og upp og niður stiga.

Viðhorf þeirra sem farið hafa með völd og lifað eftir mannfjandsamlegri hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem upphefur gróða á kostnað bókstaflega alls annars hafa gert það að verkum að „eigin kostnaður“ fólksins sem starfar við umönnun og önnur kvennastörf hefur orðið meiri og meiri. Veikindi, andleg og líkamleg, hafa aukist.

Nú stígur fólk fram og leggur til að opinberum störfum verði fjölgað, í ljósi stórkostlegs atvinnuleysis. Störfum við að annast fólk verði fjölgað. Stöfum inn í skólakerfinu okkar, umönnunarkerfinu okkar, heilbrigðiskerfinu okkar. Kerfunum sem við eigum, sem við höfum nært með skattgreiðslum okkar og vinnu okkar og tíma. Og þá dirfast valdamenn, auðmenn að láta eins og það sé versta og heimskulegasta hugmynd í heimi. Menn sem hafa aldrei dýft hendi í kalt vatn. Og bókstaflega fara bara að bulla. Vilja frekar hafa fólk atvinnulaust en að búa til störf inn í kerfum sem sárlega þurfa á því að halda. Vilja frekar hafa fólkið inn í kerfunum að niðurlotum komið frekar en að gefa örðu eftir af dogmatískum átrúnaði sínum á hugmyndafræði sem er bókstaflega eins fráhrindandi og hægt er að hugsa sér.

Hverskonar svar er þetta eiginlega hjá fjármálaráðherra Íslands?

„Þetta er einhver versta hugmynd sem ég heyrt, að nú sé ástæða til að fara að stórfjölga opinberum störfum,“ svaraði Bjarni. „Ég held að það sé ekki verkefnið. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því hvert vandamálið er. Vandamálið er störfin í einkageiranum sem eru að hverfa. Það er rót vandans.“

Hverskonar svar er þetta eiginlega hjá fjármálaráðherra Íslands? Já, vandamálið er að störfin í einkageiranum eru horfin. Fólk er án atvinnu. Og til eru stofnanir þar sem að sárvantar vinnuafl. Hjúkrunarheimilin hafa flutt inn fólk á undanförnum árum til að hægt sé að reka þau. Leikskólarnir hafa þurft að bjóða námsfólki að vera í 30%, 40% vinnu svo að hægt sé að láta hlutina ganga upp. Endalaus mannekla og fólk endalaust að byrja og hætta. Er það „versta hugmynd“ sem fullorðinn maður með stórkostleg völd hefur heyrt að vandi þeirra án atvinnu og vandi kerfanna verði leystur?

Fyrirgefiði en ég verð að viðurkenna að mér fallast hendur þegar ég les þetta. Guð minn góður, hvað er hægt að ganga langt í veruleikafirringunni?

Í Staksteinum í dag, sennilega rituðum af læriföður fjármálaráðherra, manninum sem hafði mest völd allra í íslensku samfélagi lengi vel, er lagt til að fólki sem starfar hjá hinu opinbera verði sagt upp. Til að „veita atvinnulífinu og þar með verðmætasköpuninni eðlilegt svigrúm.“ Það er hægt að ganga svona langt í veruleikafirringunni. Það er hægt að leggja það til að í stórkostlegu fjöldaatvinnuleysi sé það hlutverk hins opinbera að reka fólk! Sem getur þá farið á atvinnuleysisbætur. Sem ríkið greiðir. Þetta mun veita „svigrúm“.

Ég get ekki annað en ákallað guð aftur og farið með bæn; að forsætisráðherra raunverulega vilji og geti haft einhverja stjórn á brjálseminni í fjármálaráðuneytinu svo að menn á valdi óra og ofsatrúar fái hér ekki að leiða yfir okkur enn meiri ógæfu.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: