Stjórnmál Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og fyrrum formaður Viðreisnar, lætur að því liggja að Framsóknarflokkur, VG og Sjálfstæðisflokkur hafa daðrað hver við annan í heilt ár.
„Engum duldist á þinginu síðastliðinn vetur að foringjar Framsóknar og VG beindu gagnrýni sinni á ríkisstjórnina fyrst og fremst að Viðreisn og Bjartri framtíð en fóru mildum höndum um Sjálfstæðisflokkinn og formann hans. Eflaust hafa hugmyndir um það samstarf sem nú er unnið að verið komnar fram löngu fyrir kosningar. Með því skerpast línur í pólitíkinni. Vinstri og hægri eru löngu orðin úrelt hugtök. Í framtíðinni munu stjórnmálin snúast um frjálslyndi og framfarir annars vegar og kyrrstöðu og afturhald hins vegar. Þessar viðræður snúast um hið síðarnefnda,“ skrifar hann í Morgunblað dagsins.
Hann bendir á, það sem hefur verið oft skrifað um hér á þennan vef, hversu erfiðir einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins geta verið, að þar séu nokkrir bláir villikettir, sem er erfitt að smala. Gefum Benedikt orðið:
„Undanfarið ár kom það ítrekað fyrir, að eftir að tillögur höfðu verið samþykktar í ríkisstjórn þurfti að hefja samningaviðræður við einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokks um sömu mál. Ef til vill verða þeir leiðitamari undir leiðsögn formanns VG.“
Kannski þarf ekki að undra pólískt daður hugsandi samstarfsflokka í ríkisstjórn. Benedikt bendir á hversu líkir flokkarnir eru.
„Allir eru á móti fullri aðild að Evrópusambandinu, upptöku nýs gjaldmiðils sem og frjálsum innflutningi á landbúnaðarvörum. Ekki virðist neinn munur á stefnu flokkanna í landbúnaðarmálum og ólíklegt að ágreiningur verði um gjaldtöku í sjávarútvegi.“
-sme