- Advertisement -

Ætlum við að sætta okkur við þetta ástand?

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Hvernig getum við réttlætt:

  • Að húsnæðiskostnaður Eflingarfólks taki meira en helming af öllum ráðstöfunartekjum þess.
  • Að sívaxandi hópur Eflingarfólks festist á leigumarkaði.
  • Að einungis rúmur þriðjungur Eflingarfólks komist í eigið húsnæði.
  • Að 60% Eflingarfólks eigi erfitt með að ná endum saman.
  • Að 50% Eflingarkvenna búi við slæma andlega heilsu.
  • Að 27,8% Eflingarkvenna hafi ekki efni á að gefa börnum sínum afmælis eða jólagjafir.

Svarið er að það er ekki hægt að réttlæta neitt af því sem hér er upp talið. Hvert einasta atriði er algjörlega óréttlætanlegt. Allar þessar staðreyndir eru sönnun á því að pólitísk og efnahagsleg valdastétt hefur einfaldlega brugðist verka og láglaunafólki. Húsnæðismarkaður í klónum á auðstéttinni. Skattkerfið hyglir hinum ríku á kostnað vinnuaflsins. Stuðningur við barnafjölskyldur er mun minni hér en á hinum Norðurlöndunum. Bætur byrja að skerðast við lágmarkslaun. Og svo mætti áfram telja.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Réttlætum ekki ranglæti heldur berjumst saman fyrir réttlæti!

Ætlum við að sætta okkur við þetta ástand? Ætlum við að sætta okkur við að hamingju og heilsu samborgara okkar sé fórnað af þeirri ástæðu að ekki má hrófla við þeirri sjúku misskiptingu sem að hér hefur fengið að skjóta rótum? Eða ætlum við að standa saman og berjast fyrir því að hér geti allt fólk átt möguleika á góðu lífi? Að menn, konur og börn eigi aðgang að öruggu og góðu húsnæði á mannsæmandi kjörum. Að fólk geti lifað af laununum sínum. Að börn eigi glaða æsku en þurfi ekki að þola skort. Að verkakonur njóti sanngirni og virðingar, en sjái ekki lífslíkur sínar fara minnkandi. Að öll leggi til eftir getu og uppskeri eftir þörfum.

Ég trúi því að við ætlum að standa saman. Vegna þess að við getum ekki réttlætt að stór hópur vinnandi fólks þræli sér út en fái aldrei um frjálst höfuð strokið. VIð getum ekki réttlætt það og við viljum ekki réttlæta það.

Réttlætum ekki ranglæti heldur berjumst saman fyrir réttlæti! Þetta er okkar samfélag og það á að vera gott að lifa í því fyrir allt fólk.

Sjáumst í baráttunni!


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: