„Það er titringur í pólitíkinni, ef svo má að orði komast. Hann var byrjaður áður en fjármálaráðherra lagði leið sína í Ásmundarsal á Þorláksmessu,“ þetta má lesa í Moggagrein Styrmis Gunnarssonar nú í morgun.
Styrmir skrifar: „Sá titringur snýst um vaxandi þörf flokka á miðjunni og til vinstri til að útiloka Sjálfstæðisflokkinn frá stjórn landsins. Sú þörf er ekki ný af nálinni. „Allt er betra en íhaldið“ er gamalt slagorð. Það var mikið haft á orði fyrir þingkosningarnar 1956. Í aðdraganda þeirra voru lögð drög að vinstristjórn eftir þær kosningar. Það tókst að koma henni á en hún varð ekki eins langlíf og stefnt var að.
Það er ástæða til að ætla að svipaðar hugmyndir séu á ferð nú og hafi verið í einhvern tíma og að jarðvegur kunni að vera fyrir þeim. Samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn í núverandi ríkisstjórn hefur reynt á þolrifin bæði hjá VG og Framsóknarflokknum.
Á vinstri kantinum sjá menn fyrir sér, að með sama hætti og tekist hafi að ýta Sjálfstæðisflokknum til hliðar í borgarstjórn Reykjavíkur sé það hægt á vettvangi landsstjórnar.
Á tímum kalda stríðsins voru vinstristjórnir hættulegar vegna þess að þær snerust um að koma bandaríska varnarliðinu úr landi.
Nú á tímum er hættan sú að slíkri ríkisstjórn er ekki hægt að koma á nema með því að leiða ESB-sinna til valda. Og reynslan sýnir að þeir geta náð árangri, þótt samstarfsaðilar séu andvígir aðild Íslands að ESB.
Þingkosningarnar næsta haust geta þess vegna orðið örlagaríkari en fólk áttar sig á.
Ætli Sjálfstæðisflokkurinn hafi áttað sig á þessu?“