Geir Waage í Mogganum í dag:
„Er þetta liður í snilldaraðgerð ríkisins til að fjefletta um 32 þúsund gamalmenni um 45 milljarða á ári.“
Nú er spurt: Ætli efnamaðurinn Bjarni Ben lesi Moggann? Og ef svo er þá hefur vonandi lesið grein séra Geirs Waage. Geir hefur eflaust verið lengur í Sjálfstæðisflokknum en Bjarni. Hvað með það. Geir skrifar aldeilis fína grein í Mogga dagsins. Þar segir til dæmis:
„Þeir sem lifa nógu lengi til þess að njóta sjálfir sparifjár síns sæta því að tekjurnar eru skattlagðar sem launatekjur, enda skilgreindar sem slíkar í lögum um lífeyrissjóði. Þeir sem deyja frá inneign sinni láta öðrum gott af sjer leiða. Mætti líta svo á að þeir spari ríkissjóði ærna ölmusu, gamlir þurfamenn margir.
Skattleysismörkin eða skattaafslátturinn hefur lengi staðið í stað nærri 55 þús. kr. á mánuði. Engin vísitöluuppbót þar. Því er fólk að greiða skatt af tekjum sem eru langt undir framfærslumörkum. Fátækasta fólkið er að greiða skatta langt umfram efnamenn fyrir vikið, því þeir njóta líka frítekjumarksins af tekjum sem eru oft langt umfram nauðþurftir.“
Valhöll:
„Til þess að vera sáttur við þetta þurfa spökustu öldungar að temja sjer flokksheimsku ofan á vitleysi.“
Þarna er fast skotið og það með réttu:
„Ellilaunin voru í öndverðu sams konar almenningshlutur sem allir skyldu njóta. „Launin“ þau eru nú á ný orðin sú ölmusa sem ellistyrkurinn var. Fólkið á það undir vild stjórnmálamanna hvað þeim hlotnast, en verra er þó, að ölmusan verður þeim tæki til að blekkja fólkið: Fela gegndarlausa skattheimtu á þá sem minnst mega sín.
Nú mega gamalmenni afla sjer 100 þús. kr. á mánuði með vinnu sinni. Allt þar fram yfir hirðir ríkið að 45% og tekur a.m.k. 31% skatt að auki. Eftir sitja þá 20 þús. kr. af 100 þús. kr. viðbótarlaunatekjum sjeu menn svo óheppnir að þiggja ölmusu frá TR,“ skrifar séra Geir.
Skoðið þessa hárréttu útreikninga:
„TR skilgreinir þessar launatekjur hins vegar hjá sjer sem fjármagnstekjur og hefur engin lög fyrir sjer um þetta, að því er sjeð verður. Það er hrein vildarhyggja af ríkisins hálfu. Þær ættu því þá að bera 22% skatt; ekki yfir 31%. Svo skerðir TR ölmusugreiðslur sínar til þeirra sem hafa meira en 25 þús. kr. úr lífeyrissjóði á mánuði um 45%. Er þetta liður í snilldaraðgerð ríkisins til að fjefletta um 32 þúsund gamalmenni um 45 milljarða á ári ef þau vinna fyrir sjer, hafa fjármagnstekjur, eða hafa lagt fyrir til elliáranna: Greitt í lífeyrissjóð.
Afrek stjórnmálamannanna er í því fólgið að þeir láta gamalmennin leggja 45 milljarða króna í ríkissjóð á ári og hrósa sjer af því, hversu vel sje við þau gjört fyrir sinn atbeina. Þeir hafa sýnt að ríkinu er ekki ómáttugt að græða á fátækt. Undanfarin tvö ár hafa skattleysismörk verið lækkuð að auki til að tryggja skattlagningu á allra lægstu laun.“
Aftur er bent á Bjarna Ben:
„Laun þessara sömu stjórnmálamanna hækkuðu um síðustu áramót um 100 þúsund kr. á mánuði og aftur um síðustu mánaðamót um 75 þúsund kr.
Gamalmennin fá eina hækkun á ári frá TR 1. janúar, í ár eins og árið þar á undan um níu þúsund kr.
Grunnlífeyrir um 21 þúsund gamalmenna er um 266 þús. kr. á mánuði, en til viðbótar fá um 12 þúsund einstæð gamalmenni 67 þús. kr. á mánuði. Til samanburðar eru atvinnuleysisbætur 307 þús. kr. á mánuði og lágmarkslaun 351 þús.
Íslenzk gamalmenni eru upp til hópa þakklátt fólk, umburðarlynt og þolinmótt fram úr hófi.
Þeim er vorkunn að því að vita lítið um almannatryggingar sínar, enda standa þau þar frammi fyrir smíð stjórnmálamannanna, einkum fjármálaráðherra, hverju sinni, sem hafa megnað að gera það kerfi allt að listasmíð stjórnlyndis, hroka og mannfyrirlitningar gagnvart þeim sem minnst bera úr býtum. Til þess að vera sáttur við þetta þurfa spökustu öldungar að temja sjer flokksheimsku ofan á vitleysi.“
Það er við hæfi að birta hér gamalt og þekkt sendibréf Bjarna til eldri borgara þessa lands: