Við munum aldrei una við það að eftirlaunasjóður okkur verði notaður til að niðurgreiða taprekstur stórfyrirtækisins Icelandair og árásir þess á grunnréttindi launafólks. Aldrei.
Við undirritaðar eigum það sameiginlegt að hafa starfað sem láglaunakonur á íslenskum vinnumarkaði. Til að tryggja okkur framfærslu í ellinni rennur hluti af launum okkar í lífeyrissjóðinn Gildi. Lífeyrissjóðurinn ávaxtar sig með því að fjárfesta í alls konar kapítalískum rekstri, þar á meðal íslenskum fyrirtækjum.
Eitt af fyrirtækjunum sem Gildi hefur fjárfest í er Icelandair. Nú stendur yfir mikil herferð til að bjarga rekstri fyrirtækisins, með hlutafjárútboði. Svo virðist sem margir búist við því að lífeyrissjóðurinn okkar eigi að láta fé af hendi rakna til þessa framtaks. Við sitjum báðar í fulltrúaráði Gildis og að auki í stjórn fulltrúaráðsins sem aðal- og varamaður. Meðlimir fulltrúaráðsins fara með atkvæðisrétt á ársfundi Gildis, sem fer með æðsta vald í málefnum sjóðsins.
Öllum er ljóst að fjárfesting í Icelandair á þessum tímapunkti er ekki hefðbundin fjárfesting heldur kostnaðarsöm björgunaraðgerð. Valdamiklir aðilar í samfélaginu vilja að lífeyrissjóðir fjárfesti í Icelandair, ekki af því að það sé arðbært heldur af því að sjóðirnir séu nægilega stórir til að þola tapið. Það er sem sagt ætlast til þess að við, láglaunakonur sem höfum stritað fyrir hverri krónu, tökum á okkur áhættuna á því að búa við skert lífeyrisréttindi á okkar ævikvöldi, réttindi sem sannarlega voru ekki ríkuleg fyrir, til þess að bjarga starfsemi íslensks stórfyrirtækis.
Taprekstur Icelandair er ekki bara til kominn vegna kórónuveirufaraldursins og niðursveiflu í ferðaþjónustu, heldur einnig vegna slæmra viðskiptaákvarðana sem Bogi Nils Bogason, forstjóri fyrirtækisins, tók við gerð framvirkra eldsneytissamninga. Vegna þessara mistaka forstjórans tapaði félagið 6,6 milljörðum á fyrstu þremur mánuðum ársins 2020. Bogi Nils situr sem fastast í brúnni. Verkafólk þekkir ekki þann veruleika að fá að halda áfram í starfi eftir að hafa unnið slíkan skaða með mistökum og kunnáttuleysi.
Mistök og kunnáttuleysi eru þó ekki eina sérkennið á forystu Icelandair, fyrirtækisins sem ætlast er til að við gefum afrakstur vinnu okkar. Í sumar gerðist Icelandair brotlegt við lög um stéttarfélög og vinnudeilur að mati Alþýðusambands Íslands og á yfir höfði sér mál fyrir Félagsdómi. Fyrirtækið beitti uppsögnum og hótunum þar um til að kúga stéttarfélag til hlýðni sem átti í kjaradeilu við félagið. Slíkt er skýlaust brot á 4. grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Enn og aftur er sá veruleiki að geta setið sem fastast eftir skýlaust lögbrot í starfi nokkuð sem við og annað láglaunafólk þekkjum ekki.
Í ofríki sínu gegn launafólki og brotum á áratugalöngum venjum vinnumarkaðarins naut Icelandair einlægs stuðnings og leiðsagnar frá Samtökum atvinnulífsins. Framkvæmdastjóri SA steig fram til að lýsa því yfir að hann teldi umrædd lög úrelt og því ekki ástæðu til að fara eftir þeim.
Afar náin tengsl eru milli Icelandair og nýrrar forystu Samtaka atvinnulífsins, en bæði framkvæmdastjóri og forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs SA eru fyrrum stjórnendur hjá Icelandair. Þessir einstaklingar sátu með núverandi æðstu stjórnendum Icelandair í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna 2009-2011 og hafa svo verið innstu koppar í búri með þeim í braskfélaginu Lindarvatni.
Þessi klíka hefur ákveðið sín á milli að það eigi að nota lífeyrissparnaðinn okkar, láglaunakvenna og -karla um land allt, til að bjarga Icelandair. Um þetta höfum við aldrei verið spurðar. Enginn hefur ritað okkur erindi eða kannað hug okkar. Kjörnir fulltrúar launafólks sem stigið hafa fram til að benda á staðreyndir málsins hafa verið uppnefndir „skuggastjórnendur“, jafnvel þótt þeirra framganga hafi ekki falið í sér neitt nema spurningar og umræðu fyrir opnum tjöldum. Á sama tíma vitum við vel að í skuggum bakherbergja er nú verið að taka ákvarðanir um lífeyrissparnaðinn okkar af elítu þessa lands.
Þótt enginn hafi spurt okkur álits og að við höfum aldrei setið í stjórn SUS eða öðrum valdsmannaklúbbum þá viljum við, sem kjörnir fulltrúar sjóðfélaga í Gildi, með þessari grein upplýsa um afstöðu okkar. Hún er einföld. Við munum aldrei una við það að eftirlaunasjóður okkur verði notaður til að niðurgreiða taprekstur stórfyrirtækisins Icelandair og árásir þess á grunnréttindi launafólks. Aldrei.