„Ef Alþingi samþykkir frumvarpið og þar með forgang EES-réttar umfram íslensk lög, má öllum vera ljóst að ESB mun eftir það alls ekki sætta sig við að Alþingi setji sérreglur sem raska þeirri réttareiningu og þeirri rétthæð lagareglna sem forgangsreglan miðar að,“ skrifar varaþingmaðurinn Arnar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður.
Arnar Þór stendur utan við þingflokkinn. Hann gagnrýnir forystuna harkalega. Setur sig alfarið á móti frumvarpi varaformannsins, Þórdísar K.R. Gylfadóttur. Hann hefur skorað á forystu flokksins að segja af sér og víkja. Hér er stuðst við Moggagrein sem Arnar Þór skrifaði og er að finna í Mogga dagsins.
„Með frumvarpinu er stefnt að því að Alþingi geri Íslendinga ofurselda forgangsrétti EES-reglna, þrátt fyrir að þær eigi uppruna sinn hjá stofnunum ESB og þrátt fyrir að ESB hafi allt tangarhald á túlkunarvaldi um þessar reglur. Flutningsmenn og stuðningsmenn frumvarpsins sem telja að ESA og EFTA- dómstóllinn muni geta veitt ESB viðnám í því samhengi sem hér um ræðir hljóta að hafa óraunsæja sýn á styrk hinnar veiku EFTA-stoðar í EES-samstarfinu. Annars gætu þau ekki með góðri samvisku stutt frumvarp sem miðar að því að veikja grundvallarstofnanir og burðarstoðir okkar eigin lýðveldis.
Varnaðarorð
Arnar Þór:
Hér verða þingmenn okkar að svara til ábyrgðar gagnvart kjósendum og eigin samvisku. Við kjósendur verðum að vekja þingmenn til vitundar um þá ábyrgð sem þau bera gagnvart þjóð sinni og framtíð lýðveldisins.
Verði frumvarpið að lögum væri verið að taka skref sem gæti reynst afdrifaríkt. Íslenskum rétti yrði teflt í óvissu með því að leggja mótun hans í hendur manna sem við þekkjum ekki og svara ekki til neinnar ábyrgðar gagnvart íslenskum kjósendum. Með frumvarpinu er ýtt undir réttaróvissu, vegið að réttaröryggi, grafið undan fyrirsjáanleika laga og réttmætum væntingum Íslendinga gagnvart síðar samþykktum lögum frá Alþingi.
Sem smáþjóð höfum við Íslendingar alltaf þurft að beita lögum í vörn gegn ágengni annarra þjóða. Títtnefnt frumvarp er til þess fallið að slá þetta eina vopn úr höndum okkar og afhenda ESB vald til að setja lögin, túlka þau og framkvæma. Út frá þessu blasir við að málið er hálögfræðilegt og þarfnast mjög vandlegrar lögfræðilegrar ígrundunar áður en það verður sett í pólitíska umræðu og atkvæðagreiðslu. Þetta mál má því ekki keyra blindandi í gegnum Alþingi án þess að þingheimur og almenningur allur hafi gert sér skýra grein fyrir hvað hér er í húfi.
„Hægt er að festast, bágt mun úr að víkja“
Verði frumvarpið samþykkt á Alþingi setur það embættismenn Íslendinga í þá stöðu sem hirðmenn 13. aldar voru í gagnvart konungi, þ.e. að geta ekki óhlýðnast fyrirskipunum konungs (ESB) þótt þeim verði „stundum þvert um geð að framkvæma þær“. [JJ, 332]. Í þessu felst að embættismenn okkar geta í raun orðið ógn við sjálfstæði þjóðarinnar með því að skapa ESB bæði tól og tækifæri til að skipta sér af málefnum Íslendinga. Embættismenn, kostaðir af íslenskum skattgreiðendum, munu taka að sér að reka erindi ESB samkvæmt skipunum ESB og gæta hagsmuna ESB vandlega. Á þeim mun sannast að enginn getur þjónað tveimur herrum.
Ef Alþingi mun velja þann kost að vinna ESB þennan trúnaðareið gæti það orðið meginorsökin að endalokum lýðveldisins Íslands. Við munum búa við allt annars konar stjórnarfar en stjórnarskrá okkar gerir ráð fyrir. Við verðum eins og lén í konungsríki á miðöldum. Stjórnarstofnanir munu að vísu standa áfram en valdið verður fært úr landi í hendur manna sem Íslendingar hafa ekki kosið til áhrifa og bera engar taugar hins almenna Íslendings. Er þetta spennandi framtíðarsýn? Hér verða þingmenn okkar að svara til ábyrgðar gagnvart kjósendum og eigin samvisku. Við kjósendur verðum að vekja þingmenn til vitundar um þá ábyrgð sem þau bera gagnvart þjóð sinni og framtíð lýðveldisins.“