Sigmundur Davíð skrifar langa grein í Mogga dagsins um „þriðja orkupakkann“. Af lestri greinarinnar er hér mikil alvara á ferðum. Hann segir fullveldi Íslands vera undir. Fullveldi sem við höfum haft í eitt hundrað ár og munu ná að fagna þeim tímamótum. Hvað sem „þriðja orkupakkann“ varðar.
Í greininni segir Sigmundur Davíð:
„Hvað varðar afstöðu Sjálfstæðisflokksins og ráðherra hans til orkupakkans hef ég engan áhuga á að gera flokkinn að andstæðingi mínum í málinu. Samfylkingin og Viðreisn geta séð um það hlutverk. Andstæðingar gera stundum sitt gagn en í þessu máli vil ég miklu fremur bandamenn en andstæðinga. Málið snýst enda um grundvallarhagsmuni og fullveldi þjóðarinnar.
Annars eru áhyggjurnar líklega óþarfar því framsóknarmenn munu hafa ályktað um að flokkurinn sé andsnúinn þriðja orkupakkanum og þá hljóta ráðherrar og þingmenn flokksins að fara eftir því. …Nei, þetta er líklega ekki rétti tíminn fyrir hótfyndni. Nú þurfum við stuðning allra sem eru reiðubúnir til að verja fullveldi landsins, sama hvort þeir gera það af sannfæringu eða vegna þess að einhverjir aðrir eru til í þann slag.“
Orð Sigmundar Davíðs lýsa eðlilega bara annarri hlið málsins. Margir eru honum fullkomlega ósammála.