Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar um eftirlit með atvinnufyrirtækjum, í vikulegri Moggagrein sinni í dag. Óli Björn tilkynnir að formaðurinn Bjarni Benediktsson undirbúi stórsókn í málinu:
„Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mun í byrjun næsta árs leggja fram frumvarp um brottfall ýmissa laga. Hann ætlar að grisja lagaskóginn. Frumvarpið felur í sér brottfall hátt í 40 lagabálka sem eiga ekki lengur við sökum breyttra aðstæðna eða vegna þess að ráðstafanirnar sem lögin kváðu á um eru um garð gengnar.“
Óli Björn nefnir nokkur atriði um breytingar. Hann bendir á þetta: „Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er því lofað að gert verði átak „í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings“. Um leið er því lýst yfir að ríkisstjórnin leggi „áherslu á að stjórnsýsla sé skilvirk og réttlát“.“
Flokksráð Sjálfstæðisflokksins kom saman fyrir tæpum hálfum mánuði.
„Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins ítrekaði stefnu flokksins og tók af öll tvímæli um að þingmenn og ráðherrar flokksins skuli vinna að því að regluverk atvinnulífsins sé einfalt og sanngjarnt. Sameina eigi eftirlitsaðila, útvista verkefnum og einfalda regluverk. Þannig styrkist „samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, verð til neytenda getur lækkað, svigrúm til hærri launa eykst og stuðlað er að aukinni hagkvæmni, framleiðni og skilvirkni í atvinnulífinu“.“