Stjórnmál

Ærandi þögn Framsóknarráðherranna

By Miðjan

March 16, 2021

„Örfáum klukkustundum eftir að íslenska ríkið tapaði máli gegn konu hafði hæstvirtur menntamálaráðherra strax lýst því yfir að dómnum yrði áfrýjað. Það tók hana reyndar umtalsvert lengri tíma að treysta sér í viðtal við fjölmiðla um það sama mál. Ég get ekki séð að ráðherranum hafi legið sérstaklega á að taka ákvörðun um áfrýjun. Venjan er nefnilega sú að lögmenn rýna dóma, meta hvort ástæða og efni séu til að fara af stað og hafa frest til þess í nokkrar vikur,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir Viðreisn.

„Þetta mál er vissulega jafnréttismál og þögn Framsóknarráðherranna um málið hefur verið ærandi, sennilega einmitt vegna þess að þetta er jafnréttismál enda er þetta mjög vondur dómur um jafnréttispólitík Framsóknarflokksins. En þessi skipun snýst hins vegar líka um hagsmuni stjórnsýslunnar og hagsmuni alls almennings af því þegar skipað er í störf í þeirra þágu. Dómurinn segir að vissulega hafi ráðherrann heilmikið svigrúm um ákvörðun. Krafan sé bara sú að ráðherra geti rökstutt gerðir sínar og rökstuðningur ráðherrans þótti ekki standast skoðun. Falleinkunn, bæði hjá kærunefnd og aftur fyrir dómi.“

Þorbjörg vitnaði til orða Katrínar Jakobsdóttur þegar hún sagði að áfrýjunin hefði ekki verið borin undir ríkisstjórn. Hún sagði að Lilja Alfreðsdóttir hefði munnlega gert grein fyrir þessu máli í vor þegar hún ákvað að fara með það fyrst fyrir dóm eftir að hafa tapað fyrir kærunefndinni. Katrín sagði líka að hún hefði fyrst heyrt af áfrýjuninni í kvöldfréttum eins og aðrir, sem sagt ekkert samtal innan stjórnarinnar.