Æðisgengin rússíbani í hruninu
„Ég er fæddur á Akureyri með naflastrenginn um hálsinn. Móðir mín sagði mér söguna þannig að hún hafi verið lögst inn á Fjórðungssjúkrahúsið og ekki búist við að hún mundi fæða mig þann dag. Læknirinn hennar fer heim af vaktinni og um kvöldið tekur hann að ókyrrast og segir stundarhátt við konu sína „Ég held að ég skreppi niður eftir og líti til hennar Lillu“ Og það er ekki að orðlengja það fæðingin er farin af stað og gengur mjög hratt fyrir sig. Þessi samviskusami læknir tryggði með færni sinni að allt gekk vel og móðir mín var sannfærð um að hann hefði bjargað lífi mínu,“ sagði Haraldur Ingi Haraldsson oddviti Sósíalistaflokksins í Norðausturkjördæmi.
„Foreldrar mínir voru bláfátækir en urðu góðborgarar á Akureyri. Þau lifðu tíma einhvers mesta stéttaskriðs sem hefur átt sér stað í Íslandssögunni. Heimilið var róttækt framsóknarheimili þar sem orð eins og félagshyggja og samvinnuhreyfing heyrðust oft í orðræðunni. Ég hafði brennandi áhuga á fullorðnu fólki og fylgdist grannt með. Sérstakt áhugamál þeirra, man ég eftir, var baráttan fyrir því göfuga markmiði að konur gætu fætt í heimabyggð. Ég man eftir fögnuðinum og gleðinni sem ríkti þegar fæðingarstofa var opnuð og þá var allt í einu sunnudagsmatur á borðum í miðri viku. Ég man líka eftir því hvað barni líður vel þegar pabbi og mamma eru glöð og eindrægni ríkir milli þeirra.“
Stærsta pólitíska ákvörðunin
„Ég átti góða og ástríka æsku heilt krakkastóð á Syðri-Brekkunni á Akureyri að leikfélögum. Það var einmitt þar sem ég tók líklega mína stærstu pólitísku ákvörðun. Stóru strákarnir í hópnum höfðu komist yfir nýjar og afhjúpandi upplýsingar og eftir mikla umhugsun tók ég þá stóru ákvörðun að hætta að halda með kábojum og fara að halda með Indjánum. Sú ákvörðun að halda með þeim kúgaða sem berst fyrir réttindum sínum gegn ofurefli er enn þann dag í dag grunnurinn í minni pólitísku sannfæringu.“
Vinstri og hægri vinstri
„13 ára gamall gekk ég í Víetnam hreyfinguna þar sem ungt fólk sat saman og velti fyrir sér óréttlæti fjarlægs stríðs sem heimsveldi háði gegn fátækri bændaþjóð. Og skólaárin fram yfir tvítugt voru full af vinstri pólitík og félagsstörfum.
Ég var ósáttur við Vinstrihreyfinguna á Alþingi. Alþýðuflokkurinn var í faðmi Sjálfstæðisflokksins og Alþýðubandalag logandi af illdeilum og ég sá ekki róttæka vinstristefnu í þeim klúbbi.
Síðan taka við áratugir síminnkandi félagshyggju á öllum sviðum og sívaxandi sérhyggju. Ég gekk í Alþingisflokk í fyrsta sinn 2002 þegar ég gekk í Samfylkinguna. Mig dreymdi um það eins og marga aðra að forystumenn flokksins mundu taka upp klassíska jafnaðarstefnu eftirstríðsáranna og berjast fyrir endurreisn velferðarkerfis almennings og gegn nýfrjálshyggjunni. Það urðu sár vonbrigði að ekkert slíkt reyndist í þeirra huga og ég fór illa brenndur úr flokknum þeim.
Eftir búsáhaldabyltinguna hélt ég eitt augnablik að Píratar mundu gefa þeim röddum afl sem börðu potta og pönnur og vildu steypa þeim sem höfðu valdið hruninu en svo var ekki.
Ég var landlaus vinstrimaður eins og svo margir aðrir voru sem höfðu þá sannfæringu að það þyrfti að gera grundvallarbreytingar á samfélaginu. Smáplástrapólitíkin væri einskis virði.“
Nám og starf
„Ég lagði fyrir mig sagnfræði og myndlistarnám. Sagnfræðin kom ekki bara til af áhuga heldur voru aðstæður þannig að við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands að tvö fyrstu árin voru ólánshæf og ég átti enga peninga til að fjármagna það. Nú voru góð ráð dýr en mér tókst að kjafta þá hugmynd gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna að ég fengi sagnfræði í Háskóla Íslands metna til rúmlega helmings af gildu námi og Myndlistaskólinn fyllti upp í restina. Þannig fór ég í gegnum þessi tvö ár í tæplega tvöföldu námi.
Ég fór svo út til Hollands í framhaldsnám og þar kynntist ég velferðarkerfi sem var mun þróaðra en það sem fyrir var á Íslandi. Ég hef líka haft tækifæri til að fylgjast með því hvernig hugmyndir nýfrjálshyggjunnar hafa brotið það kerfi niður á síðustu áratugum rétt eins og hér heima.
Ég hef stundað margskonar störf. Til að gefa smá mynd af þeim þá má segja að þau spanni allt frá kræklingarækt til þess að stjórna listasafni.
Eitt eiga þau störf sameiginlegt að þau hafa vakið áhuga minn og mig langaði til að sinna þeim. Það hefur ávallt verið í fyrsta sæti ekki launin.“
Baðkör af brennivíni
„Ég var glaðsinna ungur maður. Hafði innilega gaman af skemmtanalífinu. Heillaður af töfrum hins kynsins. Og auðvitað var áfengi alltaf við höndina – það tilheyrði jú – ekki satt?
Einn æsku vinur minn sagði einu sinni við mig þar sem hann lá í slæmum timburmönnum. „Haddú þú ert byggður fyrir áfengi“ en þá vildi ég fá hann út í fótbolta eftir langa nótt.
Lengi vel gekk þetta vel. Ég var fullur orku, drakk pent, var hvergi til vandræða og ég viðurkenni það fúslega að ég skemmti mér vel.
En það er djúp speki í þessari litlu setningu „fyrst drekkur þú úr flöskunni og svo drekkur flaskan úr þér“ Og það gerðist í mínu tilviki eins og svo margra annara. Fíkn er eitt af þeim fyrirbærum sem sviftir manninn frelsi sínu. Það er ekki einungis líkamlega þörfin sem er orðin til staðar fyrir eiturefnið alkóhól heldur er það hin andlega brenglun sem á sér stað þar sem fíkillinn telur sér trú um að allt sé í lagi og ákvarðanir hans draga æ meira dám af því að dómgreindin er skert.
Þetta slampaðist skítsæmilega áfram enda alkóhólistinn slunginn í blekkingarleiknum. En óveðurskýin hrönnuðust upp. Það voru að koma kringumstæður þar sem úr hófi ölkærum einstakling, sem flestum líkaði vel við, gat ekki logið sig út úr. Það var að koma hrun.“
Missti húsið í hruninu
„Atvinnuleysi er svo sannarlega böl. Það étur einstaklinginn upp að innan. Allt í samfélaginu miðast við að ég og þú stöndum okkar plikt við lánardrottna. Og þegar atvinnuleysið ber að dyrum þá missum við þetta viðkvæma jafnvægi. Það er ótrúlega stuttur tími þar til hyldýpið fer að blasa við. Ógreiddu reikningarnir hrúgast upp og maður stendur frami fyrir því að það þurfa ekki nema 2-3 afborganir af húsinu að fara í vanskil að bankinn taki öll ráð í sínar hendur. Allt þetta kom fyrir mig og mína fjölskyldu. Kvíði, stöðugt örvæntingarfyllri ráð til að ná upp á yfirborðið, uppgjöf, sífellt meiri drykkja og ofsa bjartsýni á lausnir. Allt þetta í einu í æðisgengni rússíbanareið upp og niður geðsveifluna.
Aðgerðir stjórnvalda voru mýrarljós, frestuðu einungis því sem fjármálakerfið var löngu búið að ákveða að yrði niðurstaðan. Og það er hreint brjálæðisleg tilhugsun að hrunið borgaði sig fyrir bankana, margborgaði sig. Brennuvargarnir stóðu uppi sem sigurvegarar.
Mér sortnar enn fyrir augum er ég heyri orðið innanhúsreglur – Það orð fékk maður sífellt að heyra þegar ég var að átta mig á því að bankinn var allt í senn ákærandi, dómari og lögregla yfir mér.
Fjölskyldan leystist upp. Við skyldum, eða réttara sagt, konan gafst upp á mér og fór. Svona gerist aldrei án þess að hafa átt sér sársaukafullan aðdraganda og langan úrvinnslutíma sem einnig er býður allskyns hættum heim svo sem sjálfsvorkunn og þunglyndi. Ég stóð því frammi fyrir vandamáli sem ég mundi endanlega brotna fyrir eða sigra.
Ég sé brjálæði bólunnar fyrir hrun í húsnæðisbólunni sem nú geisar, í bankaútsölunni sem stendur fyrir dyrum og fyrirhugaðri einkavæðingu í vegakerfinu. Ég verð hryggur þegar ég sé ungt fólk setja höfuð í snöru bankanna. Skuldsett íbúðar “kaup“ eru ekkert annað en áhættusöm veðmál gegn bankanum þar sem hann heldur öllum mannspilunum á sinni hendi og einungis örlítið má út af bera til að spilið tapist. Það þekki ég
Og þá bitru reynslu tek ég með mér núna þegar ég býð fram krafta mína sem fulltrúi fólks í stjórnmálum.“
Samband mitt við börnin dýrmætasta eignin
„Eftir hrunið hafði ég tvo kosti, að halda lengra inn í myrkrið eða breyta lífi mínu. Ég gerði það síðara. Ég fékk aðstoð fagmanna til að takast á við fíknina, fór í meðferð. Og helti mér út í sjálfsuppbyggingu. Ég fór að stunda hugleiðslu, AA starf og það sem hefur reynst mér vel við að rétta af hugann af, að hella mér út í sjálfsnám og koma mér upp nýjum áhugamálum. Á því sviði fór ég að lesa hagfræði af miklum móð og smíða hljóðfæri í stíl gamallar hefðar. Með hagfræðinni var ég að gera tilraun til að skilja hvað hafði komið fyrir mig og samfélagið. Ég hef alltaf haft gaman af því að smíða hafði til dæmis smíðar sex metra langan árabát og kajaka. Það sem ég smíða þarf hins vegar að hafa sögulega tengingu til að vera skemmtilegt og hljóðfærin eru byggð á hefð bláfátækra svartra Bandaríkjamanna frá því um 1990.
Hún er mér svo eðlislæg myndlistin að ég hef ekki minnst á hana fyrr en nú. Hún er alltaf með mér þó svo að ég hafi aldrei haft áhuga á því að eiga mikinn feril sem myndlistarmaður og fyllilega verið sáttur við að nota stopular frístundir til listsköpunar. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að ég geri pólitíska myndlist þar sem gagnrýnin sýn á samfélagið er í fyrirrúmi. Ég sýni ykkur nokkrar myndir með viðtalinu.
Það sem skarar þó fram úr öllu. Það sem hefur gefið mér mest, styrkt mig mest og gefið mér þá lífsfyllingu sem ég svo sannarlega þarf á að halda er samband mitt við börnin mín og þeirra börn.
Okkur hefur tekist að byggja upp samband vináttu og trausts. Hvað mig varðar, ekki síst eftir að ég sigraðist á fíkninni, þá fær maður sannar tilfinningar til baka. Að fylgjast með þeim takast á við lífið, gleði þess og sorgir og að sjá börnin þeirra vaxa úr grasi er undravert ævintýri og ekki síst fyrir þær sakir að fá að vera með og geta rétt fram hjálparhönd. Ég á börnunum mínum mikið að þakka.
Þeim og öðru ungu fólki í þessu landi er þó margt mótdrægt. Ekki síst húsnæðismál og aðstaða námsmanna. Á húsnæðismarkaðnum stendur valið á milli skelfilegs leigumarkaðar eða snöru bankanna og það er óhugnanlegt að 70% nemenda í framhaldsnámi telji sig nauðbeygða til að vinna með námi. Nám á að vera fullt starf og sá tími sem að ungt fólk hefur til að þroska sig félagslega.
Ég stend núna á tímamótum. Eftir að hafa tekið vikan þátt í starfi ört vaxandi hreyfingar sósíalista er ég í framboði fyrir hana til Alþingis. Í fyrsta sæti á lista í Norðausturkjördæmi. Ég er stoltur af því að tilheyra vinstri hreyfingu sem hefur bæði sjálfstraust og sigurvilja og einbeitta stefnu til að breyta samfélaginu til hagsbóta fyrir fjöldann ekki þá fáu. Lyfta því upp frá botninum ekki hlaða stöðugt ofan á blá toppinn.
Ég skil að flokkurinn er sameiningarafl. Ekki til að sameinast um einkarekstur eða sveltistefnu velferðarkerfisins heldur til að sameinast um von og baráttu fyrir samfélagi sem beitir afli sínu af samhyggju ekki sundrandi sérhyggju. Hann boðar nýja, jákvæða og skýra framtíðarsýn.
Þannig lít ég bjartsýnn fram á veginn, fyrir börnin mín og öll önnur börn.“