- Advertisement -

„Æ sér gjöf til gjalda“ á dagskrá Alþingis

Mynd af frétt á Stundinni.

Eitt mál er á dagskrá Alþingis í dag, breytingar á veiðigjöldum. Fáum dylst að breytingarnar sem gerðar verða munu koma útgerðinni vel. Óvíst er hvað deig stjórnarandstaða gerir, eða reynir að gera, til að draga úr vilja stjórnarsinna til að liðka til í afkomu útgerðanna.

Í rúmlega ársgamalli frétt Vísis segir orðrétt:

„Þá styrktu 26 fyrirtæki Sjálfstæðisflokkinn um hámarksfjárhæð, alls 10,4 milljónir. Þar af voru 12 sjávarútvegsfyrirtæki sem veittu flokknum 4,8 milljónir. Alls fékk flokkurinn 19,1 milljón frá lögaðilum og rúma 41 milljón frá einstaklingum í fyrra.

Tuttugu fyrirtæki styrktu Framsókn með hámarksframlögum, alls 8 milljónir en þar af voru 11 útgerðarfélög með alls 4,4 milljónir. Alls fékk flokkurinn 13,7 milljónir frá lögaðilum og 11 milljónir frá einstaklingum.

VG þáðu átta hámarksframlög frá fyrirtækjum, alls 3,2 milljónir. Þar af helmingur frá sjávarútvegsfyrirtækjum. Alls fékk flokkurinn 6,7 milljónir frá lögaðilum og 12 milljónir frá einstaklingum.“

Ekki fer á milli mála að útgerðarfyrirtækin hafa verið ósínk á peninga til stjórnmálaflokka, einkum ríkisstjórnarflokkanna þriggja. Því má jafnvel segja að á dagskrá Alþingis sé eitt mál á dagskrá í dag: Æ sér gjöf til gjalda.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: