„…æ góða, kemur þetta þér við“
Séra Hildur Eir Bolladóttur skrifar um mál Hjartar Hjartarsonar íþróttafréttamanns.
„Einhver gæti sagt hér við mig, „æ góða kemur þetta þér við?“ Og við þeirri athugasemd á ég kannski ekki annað svar en; ja, ég er nú víst hluti af þessu samfélagi sem kallast Ísland og er þar að auki fullorðinn meðlimur í samfélaginu sem þýðir að ég get ekki alltaf vikist undan því að hafa skoðun á viðkvæmum málum.
En gott og vel, ég horfi á málið utan frá. Það sem mig langar hins vegar að segja er að ef þessi vegferð sem hér er lýst með undirskriftum fer að verða niðurstaða #meetoo byltingarinnar þá verð ég að segja að ég hef áhyggjur. Þar sem manneskjur og samskipti eru annars vegar, sama hverjar aðstæðurnar eru þá getum við ekki kallað strax til böðulinn og klárað aftökuna áður en hið raunverulega samtal á sér stað, það er aðferð sem Trump myndi sennilega fallast á en samfélag sem vill í raun beita gagnrýnni tilfinningagreindarhugsun getur ekki sætt sig við þessa aðferð.
Í fyrsta lagi er hér um tvo jafningja að ræða, það þýðir að þau hafa sömu völd yfir sjálfum sér og gjörðum sínum, hér er ekki um valdaójafnvægi að ræða þar sem annar aðilinn er til dæmis barn en hinn fullorðin eða annar aðilinn er yfirmaður og hinn á lífsviðurværi sitt undir því að styggja hann ekki eða jafnvel þegja, þetta eru mikilvægar breytur í umræðunni.
Í annan stað er ekki rétt að til séu virkir alkóhólistar sem ekki beiti ofbeldi, allir virkir alkóhólistar beita ofbeldi með því að halda umhverfu sínu meðvirku, hræddu, vonsviknu og með því að ljúga dag hvern að sjálfum sér og öðru.
Nú ætla ég að auðmýkja sjálfa mig og segja ég beitti ofbeldi þegar ég var virkur alki, ég stýrði andrúmslofti heimilisins og ég gerði fólk kvíðið í kringum mig. Allir virkir alkar beita ofbeldi. Það er óþægilegi sannleikur þessa máls sem öll þjóðin má gjarnan skoða. Ég virði samstöðu fjölmiðlakvenna með kollega sínum en ef þær hefðu spurt mig þá hefði ég ráðlagt þeim að leyfa báðum aðilum málsins að koma heim og finna út úr sínum raunum sem sjálfstæðir fullveðja einstaklingar og svo hefði verið hægt að skoða hvort þetta sé í raun það sem koma skal.
Ég bið DV um að gera ekki frétt úr þessu vegna þess einfaldlega að þeir kunna það ekki.“
Bestu kveðjur Hildur Eir.
Yfirlýsing frá Hirti Hjartarsyni:
„Kæru vinir.
Hér koma nokkur orð frá mér að gefnu tilefni. Ég vil koma því á framfæri að ég skil mætavel þau hörðu viðbrögð sem framkoma mín hefur vakið en hún varð þess valdandi að ég var kallaður heim frá Rússlandi fyrr en ætlað var. Áfengisneysla er sannarlega engin afsökun fyrir slíkri hegðun. Það er bæði sanngjörn og sjálfsögð krafa að fólki standi ekki stuggur af kollegum sínum og hárrétt að krefjast þess að öruggt vinnuumhverfi sé sett í fyrsta sæti, líkt og hópur kvenna í fjölmiðlastétt hefur gert.
Ég hef af þeim sökum óskað eftir starfslokum hjá vinnuveitanda mínum. Ég hyggst einbeita mér að því að bæta fyrir framkomu mína, bæði gagnvart nákomnum og öðrum. Ég hef þegar tekið skref í þá átt að takast á við þau vandamál sem ég á við að etja og ég er með sterkt net í kringum mig sem er að aðstoða mig við það.
Ég vil að lokum ítreka að mér þykir afar leitt að hafa brugðist því trausti sem mér hefur verið sýnt. Mínir nánustu hafa mátt þola mikið vegna þessa, eitthvað sem er afar sárt að þurfa að horfast í augu við. Aukinheldur vil ég biðja alla hlutaðeigandi afsökunar, vinnuveitanda, kollega og samstarfsmenn einna helst.
Með hlýrri kveðju,
Hjörtur Hjartarson.“