Alþingi Þingmenn hafa óskað eftir að Ríkisendurskoðun verði falið að skrifa og skila skýrslu um útgáfu starfsleyfis til United Silicon í Helguvík.
Í greinagerðinni segir meðal annars: „Stóriðjustarfsemi á Íslandi hefur frá upphafi vega hlotið ýmiss konar ívilnun af hálfu stjórnvalda, til að mynda í formi skattaívilnana og hagstæðs raforkuverðs. Þá hefur starfsemi af þessum toga löngum verið umdeild í ljósi sjónarmiða sem varða umhverfisvernd og mengunarvarnir, nú síðast að því er varðar starfsemi Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík. Í ljósi þess að verulegir ágallar virðast hafa verið á undirbúningi og framkvæmd þess verkefnis, sérstaklega með hliðsjón af neikvæðum áhrifum á umhverfi og nærsamfélag starfseminnar, fara flutningsmenn fram á, með vísan til laga um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga, að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um aðdraganda að útgáfu á starfsleyfi til kísilverksmiðju Sameinaðs sílikons hf. í Helguvík og aðkomu stjórnvalda að málinu og þeirri atburðarás sem síðan hefur orðið, eftirfylgni og úrræðum. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að slík skoðun fari fram, ekki síst til að draga fram hvort samfélagslegur ávinningur réttlæti umræddar ívilnanir stjórnvalda til starfsemi af þessu tagi.“
Hér er þingskjalið í heild sinni.