Fréttir

Aðgerðir Rio Tinto varhugaverðar

By Miðjan

January 23, 2016

Vinnumarkaður Kjaradeilan í álveri Rio Tinto Alcan í Straumsvík var til umræðu á miðstjórnarfundi Alþýðusambandsins sem fór fram miðvikudaginn 20. janúar síðastliðinn.

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ bendir á að það sé algjör nýlunda á íslenskum vinnumarkaði að ofan í erfiða kjaradeilu, eins og nú er í gangi hjá ÍSAL, komi einhliða yfirlýsing forstjóra Rio Tinto í heiminum að banna allar launahækkanir í fyrirtækinu.  Í síðustu viku tilkynnti Sam Walsh, aðalforstjóri Rio Tinto, að laun starfsmanna fyrirtækisins yrðu fryst á þessu ári til að hámarka lausafé. Hér gildi ákveðna leikreglur sem segi að laun og kjör ráðist í samskiptum stéttafélaganna við fyrirtækin og samtök fyrirtækja og það gangi ekki að senda út svona einhliða tilskipanir.

Gylfi segir það varhugavert hjá fyrirtækinu ætli það að framkvæma þetta því þá muni það hafa gríðarleg áhrif. Hann segir að atvinnurekendur og samtök atvinnulífsins verða að gera gera sér grein fyrir því að á einhverjum tímapunkti springi deilan út þannig að allur vinnumarkaðurinn, öll fyrirtæki innan Samtaka Atvinnulífsins, gætu staðið frammi fyrir því að þurfa að leysa úr þessari deilu. Kjaradeila starfsmanna álversins í Straumsvík við yfirmenn sína sé orðin að grundvallardeilu um rétt starfsmanna til að semja um kaup sín og kjör.

Gylfi vísar hér til þess að vel geti verið að aðildarfélög ASÍ fari í samúðaraðgerðir og deilan í Straumsvík teygi þannig anga sína út í allt atvinnulífið.

asi.is