„Það var auðvitað ríkisstjórnin sem ákvað að það væri mikilvægt fyrir efnahag landsins að hingað kæmu ferðamenn.“
Jóhann Páll Jóhannsson skrifar:
Landlæknir lagði áherslu á það á upplýsingafundinum í dag að tilslakanir á landamærum hefði verið að frumkvæði ríkisstjórnarinnar og þjónað efnahagslegum markmiðum. „Það var auðvitað ríkisstjórnin sem ákvað að það væri mikilvægt fyrir efnahag landsins að hingað kæmu ferðamenn,“ sagði Alma. Aðspurð hvort sérstaklega hefði verið litið til stöðu Íslands sem eyríkis og sóttvarnaraðgerða annarra eyja við landamæri, t.d. Nýja Sjálands, svaraði hún: „Við auðvitað horfum á mjög marga þætti, en það sem er með Nýja Sjáland og mér hefur skilist, er að ferðamennska er ekki eins stór hlutdeild af efnahag þess lands eins og hjá okkur, þannig það örugglega kemur ekki eins illa við þá að hafa þessar hörðu aðgerðir.“
Það er samt þannig að ferðaþjónusta er líka sú atvinnugrein í Nýja Sjálandi sem skilar mestum útflutningstekjum. Hlutdeild ferðaþjónustu í vergri landsframleiðslu Íslands var um 8% árið 2019 en tæp 6% í Nýja Sjálandi. Sirka 13 prósent starfa við ferðaþjónustu á Íslandi, en um 8% í Nýja Sjálandi. Ef efnahagslegir þættir og jafnvel stærð tiltekinnar atvinnugreinar á að ráða úrslitum um það hve langt er gengið í sóttvarnarráðstöfunum við landamæri, hefði þá ekki mátt vinna heildstæða greiningu á hagrænum áhrifum og áhættuþáttum og taka ábendingar hagfræðinga eins og Gylfa Zoëga og Þórólfs Matthíassonar alvarlega?
Það hvernig sóttvarnaráherslur virðast undanfarna mánuði hafa mótast æ meira af efnahagspólitík ríkisstjórnarinnar er ekki síst áhyggjuefni í ljósi þess að ráðherrar virðast hvorki skilja upp né niður í því hvernig gangverk efnahagslífsins og ríkisfjármál virka. Nokkur dæmi: Þórdís Kolbrún ferðamálaráðherra segir í Mogganum í dag að við þurfum á „öllu því aðhaldi sem við getum beitt í ríkisfjármálum“ að halda til að komast út úr kreppunni. Þetta er vúdúhagfræði, uppskrift að langvarandi kreppu og eymd. Bjarni Benediktsson talar á sama veg og hélt því nýlega fram í Kjarnaviðtali að framtíðarkynslóðir myndu erfa það við stjórnmálamenn dagsins í dag að reka ríkið með halla og taka lán frekar en að balansera bækurnar hratt. Sigurður Ingi samgönguráðherra er álíka ráðvilltur, mætti í fjölmiðla fyrir nokkrum dögum og hélt því fram að ríkissjóður myndi spara helling með því að láta einkaaðila fjármagna vegaframkvæmdir þegar reynslan hvarvetna sýnir fram á hið gagnstæða, enda lánskjör einkaaðila lakari og þar með fjármagnskostnaður meiri en hjá ríkinu. Eins og Gylfi Magnússon bendir á: „Þessi leið [PPP-leiðin, samvinnuverkefni/einkaframkvæmd] gerir ekkert annað en að auka flækjustig og yfirbyggingu og gera fjármögnun dýrari.“ Þórdís Kolbrún var innt eftir viðbrögðum við gagnrýni Gylfa Zoëga á landamæratilslakanir á RÚV.is í dag og sagði: „Það er líka erfitt fyrir mig að vera sammála því að, af því að við erum með þessa sjálfvirku sveiflujafnara í okkar kerfum, að þá séum við að tryggja eftirspurn þegar hún kemur úr sameiginlegum sjóðum þegar fólk hefur ekki vinnu.“ Á að ætlast til þess að Gylfi eða aðrir eyði tíma sínum í að svara svona dellu?
Þetta er staðan. Aðgerðir virðast í æ ríkari mæli hafa mótast af, ekki efnahagslegum sjónarmiðum almennt, heldur einhverri mjög þröngri og sérkennilegri sýn nokkurra stjórnmálamanna á það hvernig verðmæti verða til og hagkerfi virka í stað þess að ráðist væri í heildstætt mat á hagrænum áhrifum og áhættuþáttum þar sem horft væri til allra atvinnugreina, félagslegra þátta og grunnkerfanna sem við eigum svo mikið undir því að geti virkað með tiltölulega eðlilegum hætti.