Aðgerðar- og skeytingarleysi Bjarna
Formaður Öryrkjabandalagsins segir ráðherrann vera algjörlega úr tengslum við veruleikann sem blasir við flestum öðrum.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins, skrifar Bjarna Benediktssyni opið bréf, sem hún birtir í Mogganum.
Hún ávarpar Bjarna og segir á einum stað: „Ágæti ráðherra. Ég er bjartsýn að eðlisfari og legg alltaf af stað með það að hafa trú á fólki, trúa því að þeir sem veljast til starfa fyrir þjóðina sinni starfi sínu af alúð, heiðarleika og réttsýni.“
Svo kemur það: „Aðgerðarleysi og skeytingarleysi þitt get ég ekki skilið á annan hátt en að þú, kæri ráðherra, sért algjörlega úr tengslum við veruleikann sem blasir við flestum öðrum: Að fatlað og langveikt fólk býr við mikla fátækt.“
Þuríður segir einnig: „Það hlýtur að vera því annars hefðir þú sennilega þegar séð til þess að fólkið með lægstu tekjurnar gæti raunverulega lifað af þeim – rétt eins og þú hefur sýnt í orði og verki að þeir sem mest hafa fyrir skuli ávallt fá meira.“
Hún endar grein sína svona: „Jákvæðar aðgerðir stjórnvalda í garð örorkulífeyrisþega eru nauðsynlegar strax, áratuga þolinmæði okkar er á enda – Koma svo!“
Örorka á ekki að vera ávísun á fátækt
Fyrr í grein sinni bendir Þuríður á nokkrar staðreyndir, til dæmis þessa:
„Nú í ágúst 2018 eru um 17.830 manns með örorkumat og fá lífeyrisgreiðslur frá TR. Um 80% örorkulífeyrisþega eru með greiðslur frá TR undir 280.000 kr. fyrir skatt eða 204.000 kr. útborgaðar. Allt of margir úr þessum hópi þurfa að sætta sig við framfærslu undir 200.000 kr. Um 40% örorkulífeyrisþega eru með heildartekjur undir 300.000 kr. fyrir skatt. Örorkumat á ekki að vera ávísun á fátækt.“
Beina leið í ríkisskassann
Og eins þessa:
„Áhyggjur þínar af því að fólk/öryrkjar vilji ekki að vinna eru óþarfar. Fyrsta skrefið því til sönnunar væri að afnema „krónu á móti krónu“ skerðinguna strax. Með því móti gerðir þú mörgum örorkulífeyrisþegum kleift að stunda vinnu. Þannig fengi fólk sjálft fyrstu 60.000 krónurnar af vinnulaunum sínum í stað þess að þetta fé fari beina leið aftur í ríkiskassann í formi skatta og skerðinga.“