Skömm þeirra sem sitja við stjórn slíks félags er mikil.
Drífa Snædal, forseti ASÍ, skrifar:
Icelandair stendur nú fyrir mikilli herferð vegna hlutafjárútboðsins sem hefst á morgun þar sem framtíð félagsins ákvarðast. Ný andlit kynna fyrirtækið, ytri þættir sem valda rekstrarvanda Icelandair og annarra flugfélaga eru tíundaðir og dregin fram löng saga þessa flugfélags. Þetta er skiljanlegt, enda mikið í húfi fyrir félagið og þar með hluthafa þess og stjórnendur. Samfélagið á mikið undir traustum flugsamgöngum og endurspeglast það í ríkri fyrirgreiðslu sem Icelandair hefur notið í formi hlutabóta, greiðslu launa á uppsagnarfresti og nú síðast með heimild til ríkisábyrgðar á lánum.
Í grein í Morgunblaðinu í gær kveður við áhugaverðan tón í þessari herferð Icelandair. Þar er látið að því liggja að hlutafjárútboðið snúi öðru fremur að því að verja hag launafólks og sérstaklega tekið fram hversu margir félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ starfa hjá fyrirtækinu. Ekki er ljóst hvaða tilgangi þessi upptalning þjónar, en væntanlega að krefja ASÍ um samstöðu með stjórnendum Icelandair í gegnum ólgusjó dagsins. Slíka samstöðu er erfitt að krefja samtök launafólks um örskömmu eftir að Icelandair stóð fyrir einni grófustu aðför að réttindum vinnandi fólks hér á landi á síðari tímum, aðför sem er þegar skráð á spjöld sögunnar. Ákvörðun Icelandair að afhenda flugfreyjum og -þjónum uppsagnarbréf í miðri kjaradeilu og hóta því að ganga til samninga við annað stéttarfélag að eigin vali var ekki aðeins aðför að öllu launafólki, heldur gekk hún á svig við leikreglur á íslenskum vinnumarkaði. Undanfari þessa var ótrúleg framkoma við stéttarfélag flugfreyja og -þjóna þar sem einn daginn lá lífið á að semja en svo liðu margar vikur án samtals. Skömm þeirra sem sitja við stjórn slíks félags er mikil og þá er til lítils að hreykja sér af því að vera stór vinnustaður, eða með öðrum orðum reiða sig á vinnuafl fjölda fólks og að standa í skilum á greiðslum í stéttarfélög og lífeyrissjóði, svo sem lögbundið er.
Í stað þess að reyna að skapa nýja ásýnd félagsins í miðju hlutafjárútboði til að tæla til sín eftirlaunasjóði vinnandi fólks væri nær að félagið gengist við mistökum sínum og bæði launafólk allt afsökunar á framkomunni. Samhliða mætti félagið lýsa því yfir að héðan í frá virði það starfsfólk sitt, samningsrétt þess og aðild að stéttarfélögum. Fyrr mun Icelandair ekki endurvinna það traust sem félagið naut áður.