- Advertisement -

Aðförin að unga fólkinu gengur vel

- æ færri fá barnabætur, þau sitja eftir í launaþróun, ógerningur er að eignast íbúðir. Svar unga fólks er skýrt, sífellt færri eignast börn.

Fréttaskýring Það er kannski þreytt að nefna að á sama tíma og margt af yngsta fólkinu á Alþingi leggur sig allt fram, í vonlausri baráttu fyrir meira aðgengi að áfengi, berjast jafnaldrar þeirra, utan þingsins, fyrir tilveru sinni. Kröfum og tíma væri betur varið í annað en þetta vonlausa brennivínsmál.

Segjast verður að unga fólksins bíður vonlítil barátta. Íbúðir hafa ekki áður kostað eins mikið og nú. Að auki hefur verið séð til þess að aldrei hafi færri fengið barnabætur en nú. Svar unga fólksins er skýrt.

„Aldrei, frá því mælingar hófust árið 1853, hafa færri börn fæðst á Íslandi en í fyrra, þegar miðað er við frjósemi kvenna. Árið 2016 fæddust 4.034 börn á Íslandi, sem er fækkun frá árinu 2015 þegar 4.129 börn fæddust. Alls fæddust 2.042 drengir og 1.992 stúlkur, en það jafngildir 1.025 drengjum á móti hverjum 1.000 stúlkum.“ Þetta er tilvitnun í frétt hér á Miðjunni.

12 þúsund færri fá barnabætur

Barnabætur skipta miklu. ASÍ segir að markmið stjórnvalda hafi um nokkurt skeið verið að „einfalda“ barnabótakerfið, með því að þrengja þann hóp sem kerfið nær til og beina barnabótum einkum til heimila með allra lægstu tekjurnar.

„Minni fjármunir hefur verið settir í málaflokkinn og barnabætur hafa lækkað að raungildi. Fjölskyldum sem fá barnabætur hefur fækkaði um tæplega 12.000 milli áranna 2013 og 2016 og mun skv. þessu halda áfram að fækka á næstu árum. Tekjuskerðingarmörk voru óbreytt í barnabótakerfinu á árunum 2013-2016 og árið 2015 var skerðingarhlutfall tekna aukið. Skerðingarmörk voru hækkuð um 12,5% árið 2017 en frá árinu 2013 hefur launavísitala hækkað um nærri þriðjung. Niðurstaðan hefur verið minni útgjöld til barnabóta að raungildi og ekki annað að sjá en að stefnan sé að draga enn frekar úr

Tólf þúsund færri fá barnabætur nú.

stuðningi við barnafjölskyldur. ASÍ mótmælir þeim áformum harðlega.“

Sitja eftir í tekjum

Á meðan ráðstöf­un­ar­tekj­ur ein­stak­linga, á föstu verðlagi juk­ust um 41 prósent að meðaltali frá 1990 til 2014, lækkuðu ráðstöfunartekjur þeirra yngstu, 16 til 19 ára, um sautján prósent. Hjá fólki 20 til 24 ára jukust tekjurnar aðeins um sjö prósent, sem er langt undir því sem almennt varð, og hjá fólki 25 til 29 ára hækkuðu ráðstöfunartekjrunar aðeins um þrettán prósent.

Með öðrum orðum hef­ur fólk und­ir þrítugu setið eft­ir. Fólk und­ir tvítugu í dag hefur minna á milli hand­anna held­ur en fólk und­ir tví­tugu hafði í byrj­un tí­unda áratug­ar­ins.

Minnstu íbúðir hafa alrei veirð stærri og aldrei dýrari.
Ljósm: Adam Birkett.

Húsnæði aldrei stærra og dýrara

„Meðalstærð nýrra íbúða hefur aldrei verið meiri en í dag þrátt fyrir að markaðurinn kalli á hagkvæmari íbúðir. Á árunum 1950-1970 var meðalstærð 2ja herbergja íbúðar 62,7 fm, frá 1980 til 2010 var stærð 2ja herbergja íbúðar 72,9 fm að jafnaði en síðustu 6 árin er 2ja herbergja íbúð orðin 78,3 fm að stærð.“

Þetta er staðreynd úr rannsóknum Íbúðalánasjóðs. Minnstu íbúðirnar eru byggðar nú sextán fermetrum stærri en áður var. Að auki hafa íbúðir aldrei kostað eins mikið og nú. Ofan á allt þetta bætist að krafan um eigið fé íbúðarkaupenda er til þess að ungt fólk á enga, og í besta falli litla, von. Leiguíbúðir eru á sama tíma flestar í eigu gróðafélaga.

Svar unga fólksins er skýrt

Unga fólkið hefur svarað þeim aðstæðum sem það er sett í. Sífellt færri kjósa að eignast börn og á hverju ári fækkar nýfæddum börnum hlutfallslega. Eins er ungu fólki, ekki síst vel menntuðu, allir vegir færir í löndum þar sem allt snýr á annan veg en hér.

Það sem hér er að gerast er allt af mannavöldum. Aðförin að unga fólkinu er að takast.

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: