Það var áhugavert að lesa grein Ástu Fjeldsted, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, vegna ummæla minna í umræðuþætti á Hringbraut. Ásta sakar mig um að hafna alfarið opinberum og alþjóðlegum hagtölum.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem lobbíisti sérhagsmunahóps fer á afturlappirnar yfir ummælum mínum eða skrifum og væntanlega ekki það síðasta. Það vakti sérstaka athygli mína að hún talar um falsfréttir og líkir ummælum mínum við einhvern trumpisma en virðist sjálf vera upp fyrir haus í sömu mykju sem hún reynir að dreifa á aðra.
Í fyrsta lagi sagði ég að hagtölur og meðaltöl geta verið meingölluð. Með því var ég ekki að hafna alfarið hagtölum, tölfræði og meðaltölum almennt.
En að kjarna málsins. Af hverju sagði ég þetta og hvað get ég vísað í máli mínu til stuðnings. Ef við byrjum á neysluvísitölugrunninum sem af mörgum fræðimönnum er talinn gefa brenglaða niðurstöðu meðal annars út af húsnæðisliðnum en húsnæðisliðurinn einn og sér hefur gert það að verkum að hér hefur verið verðhjöðnun en ekki verðbólga síðustu ár. Þar sem neysluvísitölugrunnurinn er mældur með öðrum hætti en þekkist á byggðu bóli hlýtur það að gera allan alþjóðlegan samanburð ómarktækan eða í það minnsta gallaðan eins og ég hélt fram.
Þetta hefur kostað íslensk heimili milljarða tugi síðustu ár. Launavísitalan er svo annað mál en Samtök atvinnulífsins hafa bent á að launavísitalan sé meingölluð og gefi ekki bara upp ranga mynd af launaþróun heldur beinlínis keyri áfram launahækkanir. Nú er farin af stað vinna við að breyta því hvernig við reiknum út launaþróun. Ef þessar tvær vísitölur eru meingallaðar hvað er þá hægt að segja um útkomuna ef þær eru báðar notaðar til að reikna út kaupmátt?
Við í VR höfum einmitt gagnrýnt mjög framsetningu á útreikningi á kaupmætti og þá sérstaklega þegar ekki er tekið tillit til skerðinga vegna tekjutenginga, skatta og fleiri þátta eins og vaxta og húsnæðiskostnaðar sem við höfum sannað að hafa mikil áhrif. Einnig er óábyrgt að setja fram fullyrðingar um samanburð milli landa varðandi ráðstöfunartekjur án þess að taka með í reikninginn hvað kostar að lifa. Taka tillit til vaxtastigs,verðtryggingar og húsnæðiskostnaðar og fleiri þátta sem gjörbreyta öllum samanburði, meðaltölum og niðurstöðum.
Við erum með fjölda gagna frá leigufélögum sem staðfesta 50 til 70% hækkun á húsaleigu síðastliðin tvö ár. Hver er kaupmáttur fólks á leigumarkaði samanborið við nágrannalöndin? Þetta er ekki bara einhver lítill hópur eða einhver smávægileg frávik. Þetta er risastór tala í jöfnunni.
Og talandi um hagtölur þá er samkvæmt OECD rekstrarkostnaður íslenskra lífeyrissjóða með því lægsta sem þekkist. Það hlýtur að vera staðreynd ef marka má ofurtrú framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs á alþjóðlegum hagtölum.
Staðreyndin er sú að tölur OECD um rekstrarkostnað taka eingöngu mið af uppgefnum rekstrarkostnaði í ársreikningum. Í tilfelli íslenskra lífeyrissjóða er það nær eingöngu skrifstofu- og stjórnunarkostnaður en tölurnar taka ekki mið af fjárfestingargjöldum lífeyrissjóða sem er langstærsti kostnaður þeirra og mjög mismunandi hvernig hann er greindur í uppgjöri þeirra, bæði hér og erlendis. Þannig er í raun ómögulegt að bera saman rekstrarkostnað sjóðanna þó að tölur OECD gefi vissulega bjarta mynd af okkur Íslendingum hvað þetta varðar og hafa þessar tölur verið notaðar í gríð og erg til að skapa betri mynd af íslenska kerfinu sem er það besta í heimi í öllum alþjóðlegum samanburði. Eða hvað? Nú tala fræðimenn um mikilvægi þess að breyta lífeyriskerfinu og hvernig það hefur snúist upp í andhverfu sína.
Ég gæti skrifað linnulaust um fleiri dæmi en læt staðar numið í bili.
Grein Ástu er frekar aðför að upplýstri umræðu og almennri skynsemi en skjaldborg um upplýstara samfélag.
Samkvæmt hagtölum ættu þúsundir landsmanna sem flúðu hér lífskjör eftir hrun að standa í biðröðum eftir að komast aftur heim. Þær biðraðir eru ekki sjáanlegar hinu vökula auga né í hagtölum eða greiningum á alþjóðlegum samanburði.
Það er enginn ágreiningur um það að lægstu laun duga ekki til framfærslu.
Meðaltöl og hagtölur geta verið af hinu góða og gefið ágæta mynd af stöðu þjóðar og samfélags. Ég hafna þeim ekki. En tel þær geta verið meingallaðar og vara við því að þær séu notaðar sem heilagur sannleikur þegar annað er augljóst.
Ragnar Þór Ingólfsson. Höfundur er formaður VR.