Þetta er nánast orðrétt upp úr Katrínu Jakobsdóttur þegar hún reyndi að mála ósigur sinn sem aðeins hluta af langri baráttu.
Gunnar Smári skrifar:
Aðalfundur Landverndar lætur forystu VG heyra það með mun meira afgerandi hátt en lesa mátti af fyrstu viðbrögðum stjórnar samtakanna þegar hálendisþjóðgarðurinn dagaði uppi á þingi.
Ályktunin byrjar svona:
„Aðalfundur Landverndar lýsir yfir miklum vonbrigðum með framgöngu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri-grænna í málefnum hálendisins. Nú undir lok kjörtímabilsins er orðið ljóst að það var aldrei raunveruleg ætlun allra stjórnarflokkanna að stofna hálendisþjóðgarð og sá stjórnarflokkur sem í raun studdi málið reyndist hvorki hafa þrek né þor til að sigla málinu í höfn.
Aðalfundur Landverndar harmar hversu illa hefur verið staðið að málinu af hálfu stjórnarflokkanna, m.a. með of mikilli eftirgjöf við staðbundna sérhagsmuni og virkjanaiðnaðinn. Algjört vald sveitarfélaga yfir skipulagsmálum innan þjóðgarðsins, virkjanasvæði innan marka garðsins og í jaðri hans og algjört metnaðarleysi í landgræðslumálum eru dæmi um það hvernig þessi eftirgjöf skaðaði frumvarpið. Þessi misheppnaði málarekstur ríkisstjórnarinnar, bæði viljandi og óviljandi, hefur haft í för með sér að á kjörtímabilinu hefur dregið úr stuðningi almennings við stofnun hálendisþjóðgarðs. Nú bíður náttúruverndarhreyfingarinnar mikið verk að efla þennan stuðning aftur í breiðri sátt náttúruverndar- og útivistarfélaga.“
Síðan fylgja málsgreinar sem eru líkari þeim tón sem var í yfirlýsingum stjórnar. Það má eiginlega finna lyktina af átökum innan samtakanna af þessari yfirlýsingu; annars vegar milli þeirra sem vilja berjast fyrir málstaðinn og hins vegar þau sem vilja beygja sig alfarið undir forræði VG og aðlaga málflutning Landverndar að þörfum þess flokks, að Landvernd sé skúffa í VG.
Það sést t.d. á þessari setningu í upphafi síðustu málsgreinar: „Hugmyndin um Hálendisþjóðgarð lifir áfram. Verkefnið bíður þeirra þingmanna sem fá umboð þjóðarinnar eftir næstu kosningar til Alþingis.“ Þetta er nánast orðrétt upp úr Katrínu Jakobsdóttur þegar hún reyndi að mála ósigur sinn sem aðeins hluta af langri baráttu.