Fréttir

„Að þið skulið vera að þessu“

By Sigrún Erna Geirsdóttir

October 05, 2014

Hátíðardagskrá og sýning tileinkuð fjörutíu ára rithöfundarafmæli Guðrúnar Helgadóttir hefst í aðalsafni Borgarbókasafns í dag kl 15. Á þessu ári eru fjörutíu ár síðan barnabókin velþekkta, Jón Oddur og Jón Bjarni (1974), kom út. Guðrún Helgadóttir, skapari þeirra bræðra og fjölmargra annarra ógleymanlegra persóna, á því fertugsafmæli í ár – sem rithöfundur.

Borgarbókasafn Reykjavíkur, í samstarfi við Bókmenntaborg í Reykjavík og Forlagið, efnis af þessu tilefni til hátíðardagskrár fyrir aðdáendur Guðrúnar á öllum aldri sem og væntanlega lesendur. Á sama tíma verður opnuð sýning tileinkuð höfundarverki Guðrúnar, en þar má meðal annars sjá myndir úr bókunum í félagi við fleygar tilvitnanir.

Dagskráin verður í aðalsafni Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15, sunnudaginn 5. október, kl. 15. Fram koma Ari Eldjárn, Katrín Jakobsdóttir og Silja Aðalsteinsdóttir. Guðni Franzson og Egill Ólafsson flytja atriði úr tónverki Guðna sem samið er við Ástarsögu úr fjöllunum. Einnig mun Hildur Knútsdóttir ræða við Guðrúnu. Allir eru velkomir.