Sigurjón Magnús Egilsson:
Nú vill þingmaðurinn að ráðist verði í allar þær breytingar sem ekki hefur tekist að gera frá árinu 1929.
Óli Björn Kárason er einn þeirra þingmanna sem hefur pólitískar skoðanir. Óli Björn virðist langþreyttur á erindisleysi eigin flokks. Sem hefur þó verið ráðandi í allflestum ríkisstjórnum í marga, marga áratugi. Grein Óla Björns í Mogga dagsins er svona og svona. Lok greinarinnar eru játning á getuleysi Sjálfstæðisflokksins. Þar er nánast sagt að flokkurinn hafi barist við sjálfan sig, aftur og aftur, og tapað. Yfir til þingmannsins Óla Björns Kárasonar:
„Við sem höfum barist fyrir frjálsum viðskiptum og takmörkuðum afskiptum ríkisins verðum að viðurkenna að við erum undir í baráttunni við stjórnlyndi og samfélagsverkfræði. Við höfum ekki náð að tryggja skilvirkni í eftirliti með samkeppni og starfsháttum fyrirtækja eða komið á jafnræði á mörkuðum þar sem ríkið sjálft situr á fleti. Tækifærin til að stokka upp, byggja undir virka samkeppni og efla neytendavernd og samkeppniseftirlit hafa ekki verið nýtt. Það væri ábyrgðarlaust að láta næstu fjögur ár líða með hendur í skauti og horfa á dauða hönd fábreytileikans leggjast yfir af fullum þunga.“
Nú vill þingmaðurinn að ráðist verði í allar þær breytingar sem ekki hefur tekist að gera frá árinu 1929.