„Uppsöfnun auðs í höndum ríkisins á meðan tugþúsundir almennings búa við þröngan kost er heldur ekki heillavænlegt ástand í ljósi þess valds sem eignum fylgir. 70% (efnaminni hluti) þjóðarinnar eru alltaf að verða hinu opinbera háðari um alls kyns styrki, bætur, úthlutanir og stuðning. Tekjujöfnuður getur orðið sæmilegur með þessum hætti en sá böggull fylgir skammrifi að vera öðrum háður. En tekjur eru ekki vald, frekar það að vera öðrum háður. Vald og sjálfræði fylgja eignum, ekki óvissum tekjum sem þú átt undir náð og miskunn hins opinbera eða annarra. Það er beint samband á milli valds og góðra eigna. Of mikil uppsöfnun eigna og miðstýring er ólýðræðisleg. Hún dregur úr völdum og sjálfstæði flestra einstaklinga.“
Þetta skrifar Jóhann J. Ólafsson, fyrrum heildsali. Grein Jóhanns birtist i Mogganum í gær. Þetta er ekki fyrsta greinin sem Jóhann skrifar um þetta sama málefni. Það er óþolandi stöðu fátækasta fólksins á Íslandi.
„Opinbert fé er oft kallað sameign okkar allra, þjóðareign. Er nauðsynlegt eða hagkvæmt að halda svo miklum eignum þjóðfélagsins, skattgreiðenda í ríkiseign? Ógnar það ef til vill lýðræðinu? Er ekki kominn tími til að skila einhverju af þessum fjármunum aftur til einstaklinganna, bæta hag þeirra lakar settu, styrkja stöðu þeirra?“
Næst kemur forvitnilegur kafli:
„Stefnan gæti verið sú að sérhver einstaklingur eigi skuldlausa eign að upphæð töluvert ofar fátækramörkum. Eignir eru uppsöfnuð vinna. Persónulegar eignir virka fyrir einstaklinginn eins og uppistöðulón vatnsaflsrafvirkjunar, þær jafna út áföll eins og veikindi, atvinnuleysi og veita tíma til endurmenntunar. Þær auka sjálfstæði og öryggi einstaklingsins. Tilgangurinn er að gera menn óháðari lánveitendum og bönkum.“
Að endingu birtum við lok greinarinnar:
„Skattfé er ódýrasta fjármagn sem hið opinbera getur fengið, engir vextir, hvorki afborganir né skatta að greiða, án nokkurs rétts á endurgjaldi fyrir skattgreiðandann sjálfan persónulega. Það er mikil freisting fyrir það opinbera að nota þetta fé frjálslega í hvers konar rekstur í beinni samkeppni við einkarekstur, sem þarf að borga skatta af sínum rekstri til hins opinbera samkeppnisaðila. Hins vegar er greiðsla skattgreiðandans dýrasta fé sem hann innir af hendi án nokkurs beins loforðs til hans persónulega. Gagnkvæmnin er með öðrum orðum mjög óskýr. Mikið af þessu skattfé fer að sönnu í fjárfestingar hins opinbera. Mörg hundruð milljarðar króna munu því fara árlega frá skattgreiðendum í opinberar fjárfestingar. Er ekki æskilegt og lýðræðislegt að hið opinbera, fremur en að hrifsa í sífellu fjármuni fólks og gera að sínum, fái heldur fé að láni hjá skattgreiðendum. Er ekki nauðsynlegt að einhverjar hömlur séu settar á öflun og eyðslu skattfjár? Opinbert fé eða eign er sameign landsmanna og því er enginn vafi á því að Íslendingar eiga þessa fjármuni. Þessi höfuðstóll ætti því að færast til bókar og færast hægra megin, skuldamegin, á efnahagsreikning ríkisins sem skuld við landsmenn. Reikna ætti vexti af þessari eign, sem gæti farið í opinberan sjóð og fé úr honum notað til að útrýma fátækt á Íslandi. Þá væri opinbert fé ekki ókeypis og þyrfti að gæta þess betur.“