Nær væri að setja lög sem tækju skipulagsvaldið af borginni hvað flugvöllinn varðar og setja hann inn í stjórnarskrá.
Guðna Ágústssyni er mikið niðri fyrir. Vegna Reykjavíkurflugvallar, „flugvelli þjóðarinnar“. Honum þykir lítið gagn í forystufólki ríksstjórnarnnar: „Þau þurfa því að bera saman bækur sínar, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Dagur B. Eggertsson er að ná öllu sínu fram og getur slátrað flugvelli þjóðarinnar í Vatnsmýrinni innan tuttugu mánaða.“
Þetta segir Guðni í Moggagrein í dag. Honum er ekki orða vant:
„Ég hef aldrei á langri ævi horft á annan eins skrípaleik og flugvallarmálið. Báðir aðilar málsins fara með vilja þjóðarinnar eins og í svikamyllu. Að vísu er þetta allt ætlunarverk Dags B. Eggertssonar, og ekkert þýðir að ræða málið við hann, byggingaráformin og brotaviljinn liggja fyrir. Alþingi ber að verja flugvöllinn í Vatnsmýrinni, því að hann er hluti af lífsgæðum og lífsöryggi landsmanna. Nær væri að setja lög sem tækju skipulagsvaldið af borginni hvað flugvöllinn varðar og setja hann inn í stjórnarskrá. Nú þrefa stjórnmálamenn í stjórnarskrármálinu um embætti forseta Íslands sem ekkert hefur til saka unnið. Þó hefur þjóðin átt forseta sem greip í neyðarhemil tvisvar þegar meirihluti á Alþingi virtist hafa tapað glórunni í Icesave.“