Að sigra óttann og leyfa okkur að dreyma stórt
Gunnar Smári skrifar:
Ég skrifaði hérna um daginn að sósíalistar þyrftu í sjálfu sér ekki að sannfæra neinn um inntak sósíalismans, meginþorri fólks væri sammála um að jöfnuður, frelsi, samkennd og mannúð væri forsenda góðs samfélags. Vandinn væri hins vegar flestir hefðu látist sannfærast um að við ættum þetta samfélag ekki skilið, að ef við teygðum okkur eftir hinu góða myndi hellast yfir okkur eitthvert óáran; kúgun, skortur, eymd. Yfir óréttlæti kapítalismans ríkir sú trú að við eigum ekki neitt gott skilið, að mannskepnan sé of gölluð, of sjálfselsk til að geta búið til gott samfélag. Hin myrka svartsýni kapítalismans kæfir hina frelsandi bjartsýni sósíalismans. Óttinn sigrar. Það er hann sem er óvinurinn. Ef okkur tekst að yfirvinna óttann gerist hitt svo til af sjálfum sér, fólk frelsast undan kúgun og ótta og lætur ekkert aftra sér í að búa til gott og gjöfult samfélag sem rúmar alla. Barátta okkar á að snúast um þetta: Að sigra óttann og leyfa okkur að dreyma stórt. Það er frelsið. Og þá getum við barist við aðra óvini, erum laus undan því að bera óvininn innra með okkur hvert sem við förum