Og hverjir munu kaupa Íslandsbanka og hirða öll gulleggin
Árni Gunnarsson skrifar:
Ósköp þótti mér dapurt, að heyra forsætisráðherra lýsa því yfir í sjónvarpi, að hún vildi selja Íslandsbanka. Þessi banki hefur lengi verpt gulleggjum fyrir ríkissjóð. Eru allir búnir að gleyma hvernig fór fyrir Búnaðarbanka og Landsbanka forðum daga. Tveir menn keyptu Búnaðarbanka á röngum forsendum. Þeir þurftu ekki að leggja fram krónu úr eigin vösum og hirtu um 90 milljónir dollara fyrir vikið. Á svipaðan hátt náðu nokkrir einstaklingar í Landsbankanna. Kaupendur þessara banka komu úr Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki.
Gamla helmingaskiptareglan í fullu gildi.
Og hverjir munu kaupa Íslandsbanka og hirða öll gulleggin. Það verða fjársterkir einstaklingar, sem líklega verða handvaldir.
Við gleymum því, að hlutur ríkisins í þessum tveimur bönkum, er eignarhlutur þjóðarinnar. Forsætis- og fjármálaráðherra segjast ætla að nota andvirði bankanna til að efla og auka innviði lands og þjóðar.
Hagnaðurinn af sölu Símans átti að fara í Landspítalann. Það fór ekki króna þangað. Peningurinn hvarf eins og dögg fyrir sólu.
Sala á Íslandsbanka og Landsbanka leggst illa í mig. Báðir hafa þessir bankar skilað stórum fjárhæðum í sameiginlegan sjóð þjóðarinnar. Fjáraflamenn sjá ofsjónum yfir því, að gulleggin bæti hag almennings. Þeir vilja eignast varphænurnar.