- Advertisement -

Að sætta sig við hið óásættanlega

„Sorrý stelpur, svona er lífið“.

Sólveig Anna skrifaði:

Stórkostlega mikilvæg stuðningsyfirlýsing frá stjórn VR þar sem þau hitta naglann á höfuðið: „Að geta lifað með mannlegri reisn af launum sínum hlýtur að vera eitt grundvallar mannréttinda- og baráttumál verkalýðshreyfingarinnar“.

Hér fylgja svo orð formanns VR, míns kæra félaga, þar sem hann fer yfir markmið hins svokallaða Lífskjarasamnings og bendir á það sem við verðum öll að hafa hugafst: Vinnandi fólk hafnaði SALEK hugmyndafræðinni, þar sem að ekkert pláss var fyrir stétta og réttlætisbaráttu, þar sem Exel-fólkið átti einfaldlega að fá að reikna út svigrúmið og við hin svo að sætta okkur við þá niðurstöðu. Sérstaklega þau neðst í stigveldinu, þau sem minnstu völdin höfðu. Vinnandi fólk hafnaði henni vegna þess að hún er ólýðræðisleg, sett fram til að ná stjórn á vinnandi fólki, sett fram til að fá vinnuaflið til að sætta sig við áframhaldandi arðrán.

Ég spyr ykkur, kæra fólk: Hefði ykkur fundist það ásættanlegt ef ég sem nýr formaður Eflingar, hefði flutt þau skilaboð til félaga minna sem starfa hjá Reykjavíkurborg, að þau ættu að halda áfram að sætta sig við hið óásættanlega? Að þau ættu bara áfram að bíða eftir því að kannski yrði einhvern daginn hægt að bæta kjör þeirra og aðstæður, en samt sennilega ekki af því að Halldór Benjamín og SA gætu ekki þolað það? „Sorrý stelpur, svona er lífið“. Hefði ykkur fundist í lagi að ég, eftir að hafa starfað í 10 ár á einum af leikskólum borgarinnar fyrir sultarlaun og undir viðvarandi álagi, hefði gleymt samstarfskonum mínum og öllum hinum sem lifa og starfa við sambærilegar aðstæður um leið og ég væri komin í þá stöðu sem ég gegni? Stöðu sem ég er í einmitt vegna þess að ég sagði hátt og skýrt að ég ætlaði að segja viðbjóðslegri samræmdri láglaunastefnunni stríð á hendur?

Félagsmenn mínir hjá Reykjavíkurborg, að stærstum meirihluta konur ætla ekki að bíða lengur eftir því að sá dagur renni upp að marg-milljón króna mennirnir ákveði með sjálfum sér að tímabært sé að rétta þeirra hlut. Vitiði af hverju? Vegna þess að sá dagur mun aldrei renna upp! Aldrei!
Aðeins með markvissri baráttu, aðeins með því að draga línu í sandinn, aðeins með því að krefjast og hætta að bíða munu láglaunakonurnar sem að starfa hjá borginni ná árangri í kjarabaráttu sinni!

Takk aftur, kæra stjórn VR og kæri Ragnar Þór Ingólfsson, stuðningur ykkar er ómetanlegur!

Sjáumst í baráttunni!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: